139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins.

231. mál
[11:42]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina þó að ég verði aðeins að leiðrétta hann í sagnfræðinni því að aðalskrifstofur Landmælinga Íslands voru fluttar á Akranes fyrir nokkrum árum. Það er líka svo með stofnanir umhverfisráðuneytisins að þær eru þó nokkuð margar úti á landi. Til að mynda eru Landgræðsla ríkisins í Gunnarsholti, Rannsóknarstofnun á Mývatni og auðvitað eru Veðurstofa Íslands og Umhverfisstofnun með starfsemi víða um land eins og gefur að skilja.

Spurningin snýst um það hvort fyrirhugað sé að flytja höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins frá Fljótsdalshéraði og því er til að svara að engin slík ákvörðun hefur verið tekin í umhverfisráðuneytinu. Höfuðstöðvarnar voru á sínum tíma fluttar frá Reykjavík til Egilsstaða, eins og fram kom í máli þingmannsins, og frá því að Skógrækt ríkisins var flutt frá landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins, 1. janúar 2008, hefur hún verið staðsett þar. Í umhverfisráðuneytinu hefur að þessu sinni ekki verið rætt um að flytja höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins frá Egilsstöðum og allra síst í tengslum við fjárlagagerðina.