139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins.

231. mál
[11:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætt svar. Ég vil hins vegar mótmæla orðum síðasta ræðumanns, hv. þm. Marðar Árnasonar. Enda þótt við séum í sama flokki sem er stór og breiður þá er ég ekki endilega sammála honum um mat hans á opinberri þjónustu. Ég tel ekkert sjálfgefið að öll opinber þjónusta, aðalskrifstofur hennar og miðstöðvar, sé staðsett í einni og sömu borginni. Flestar þjóðir í kringum okkur haga málum sínum með öðrum hætti. Ég nefni þar Norðurlöndin sérstaklega. Víða hefur reyndar verið farið út í það að flytja miðlæga starfsemi út úr umferðaröngþveiti stórborganna og horfi ég þar til Kaliforníu svo dæmi sé tekið, fimmta stærsta hagkerfis í heimi.

En almennt vil ég segja þetta um þessi mál. Það er pólitísk ákvörðun á hverjum tíma hvar miðstöð opinberrar þjónustu er. Það er jafnframt að mínu viti augljóst að einhver best heppnaða byggðaaðgerð síðustu ára og áratuga er stofnun opinberrar þjónustu á borð við Háskólann á Akureyri. Það er í raun og sann stóriðja Eyjafjarðar, Háskólinn á Akureyri og sú starfsemi sem þar hefur fengið að þroskast. Sömu sögu má segja um álíka opinbera þjónustu hringinn í kringum landið, á Egilsstöðum, Ísafirði og þar sem opinber þjónusta hefur verið að styrkjast í sessi. Hún skiptir þessi bæjarfélög gríðarlega miklu máli. Þess vegna tel ég vel koma til greina að sú starfsemi hins opinbera sem á verkefna vegna heima úti á landi sé þar (Forseti hringir.) með meginhluta starfsemi sinnar.