139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

verðbréfaviðskipti.

218. mál
[13:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja umræðuna mikið um þetta mál en mér finnst hins vegar skylt að upplýsa að ástæðan fyrir því að málið er hér fram komið, og var upplýst um það í nefndinni, er að við vorum með reglur sem unnar voru í miklum flýti fyrir síðustu kosningar. Þær gerðu það að verkum að stærstu félög landsins ýmist hugðust fara úr landi eða fóru úr landi. Þá er ég að vísa í Össur og Marel. Ég held að sé afskaplega mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að umræðan hefur verið svolítið á öðrum nótum. Þetta kom skýrt fram í nefndinni hjá þeim gestum sem þar komu og kemur sömuleiðis fram í greinargerð með frumvarpinu. Annars er málið þannig vaxið að góð sátt var um það og algjör samstaða um það í hv. viðskiptanefnd að klára það með þessum hætti. Við sjálfstæðismenn styðjum það.