139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til skamms tíma voru á Íslandi stjórnmálamenn sem voru þeirrar skoðunar að báknið ætti að fara burt, það væri of stórt. Ég trúi því að þeir séu enn þá til staðar þó að þeir séu kannski ekki í þessum sal.

Ég vil segja að endurskoðun á Stjórnarráðinu er hvergi nærri lokið. Nýverið kom fram könnun meðal forstöðumanna ríkisstofnana sem ég man ekki nákvæmlega hverjir stóðu fyrir en hún sýndi fram á að þeir teldu sig geta bætt til mikilla muna þjónustu stofnana sinna ef meiri sveigjanleiki væri í lögum um opinbera starfsmenn og auðveldara væri en nú að gera breytingar á starfsliði stofnananna.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fara í frekari breytingar, hugsanlega er þörf á að gera einhvers konar heildarúttekt á Stjórnarráðinu. Sem slíkt, þegar allt er saman tekið, er Stjórnarráðið ekkert sérstaklega stór vinnustaður ef það og öll ráðuneytin í heild sinni eru borin saman við meðalstór fyrirtæki á Íslandi sem eru auðvitað ekki stór á alþjóðlegan mælikvarða. Það er full ástæða til að fara ofan í þessi mál en þær breytingar sem verið er að gera með þessu frumvarpi eru að mínu mati skref í rétta átt, vissulega ekki stór en nauðsynlegt upphaf á þeirri vinnu sem fram undan er.

Ég skorast ekki undan því að taka efnislega umræðu um málið við hv. þingmann og óska sérstaklega eftir hugmyndum hans um það hvernig sé hægt að minnka hið svokallaða bákn.