139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir að meginmarkmið frumvarpsins er göfugt, þ.e. að löggjafinn reyni að koma skuldugu fólki sem er í alvarlegum fjárhagsvandræðum til aðstoðar og haga löggjöfinni þannig að þeir sem lenda í þeirri stöðu að bú þeirra er tekið til gjaldþrotaskipta þurfi ekki að sæta því að kröfurnar séu endurnýjaðar hvað eftir annað á tíu ára fresti og þeim gert ómögulegt að rísa aftur fjárhagslega á lappirnar og hefja nýtt líf ef svo má segja. Þetta er markmið frumvarpsins sem við ræðum, stytting á fyrningu krafna við gjaldþrot úr tíu árum í tvö.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann að er hvort hann óttist ekki úrræðið sem lagt er til að lögfest verði nái ekki meginmarkmiðum sínum, þ.e. að koma venjulegu fólki til bjargar. Nú er það svo að til þess að reglan gildi þarf að taka bú viðkomandi einstaklings til gjaldþrotaskipta. Sá sem þess óskar þarf að leggja fram 250 þús. kr. tryggingu fyrir skiptakostnaði. Einstaklingur sem óskar sjálfur eftir því að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta þarf að gera hið sama. Tölurnar sýna að kröfuhafar láta sér nægja að gera árangurslaust fjárnám í eigum skuldarans og maður skyldi ætla að aðili sem er kominn í þá fjárhagslegu stöðu sem frumvarpinu er ætlað að mæta ætti ekki að (Forseti hringir.) eiga fyrir skiptakostnaði upp á 250 þús. kr., a.m.k. hinn venjulegi maður. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort hann óttist ekki að markmið frumvarpsins, þó góð séu, náist ekki (Forseti hringir.) með frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar.