139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

kostnaður við nýjan Icesave-samning.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Nú er gott að halda því til haga, virðulegi forseti, að samninganefndin sem kom heim með drög að samningi var mjög einhuga um þau drög sem hafa verið lögð fyrir þingið og í þeirri nefnd átti líka sæti fulltrúi stjórnarandstöðunnar. Þeir útreikningar sem hv. þingmaður vísaði í og sem betur fer heyri ég hann ekki endurtaka vitleysu íhaldsmanna um að 432 milljörðum kr. muni á þessum samningi og síðasta en hann spyr hvernig þetta hafi verið fundið út.

Það hefur nú verið reiknað út af þessum samningamönnum sem stjórn og stjórnarandstaða treystu að þetta séu um 110 milljarðar kr. Þá hefur þetta ekki verið núvirt. Aðalmunurinn er sá að aðstæður eru miklu hagstæðari en í fyrri samningi. Gjaldeyrisforðinn er slíkur nú sem hann var ekki þá sem gerir okkur kleift að hefja greiðslur miklu fyrr en var í fyrri samningi þannig að vaxtagreiðslur eru greiddar fjórum sinnum á ári sem munar um 50 milljörðum kr. 40–60 milljarða kr. má rekja til hagstæðari gengismunar en var í fyrri samningi. Vextir eru líklega um 1 prósentustigi lægri auk þess sem hv. þingmaður veit að endurheimtur úr búinu eru miklu betri en voru þá. Allt þetta hefur lagst með okkur, m.a. fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar, það efnahagsumhverfi sem við erum í er miklu hagstæðara en það var þá sem gerir okkur kleift að fara í þennan samning.

Síðan hefur Lee Buchheit sagt að hann telji ekki hægt að ganga lengra í því að ná hagstæðari samningi en við höfum þegar náð. Ég er sammála honum í því. Síðan er auðvitað spurning við hvaða samning á að miða. Á að miða við 5,5% (Forseti hringir.) samninginn? Á að miða við það sem lá á borðinu og var raunverulega í hendi þegar við fórum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er nálægt þessum samningi sem við erum að fjalla um núna? Eða á að miða við 6,7% vextina sem voru á borðinu þegar (Forseti hringir.) íhaldið var við stjórn og var að semja við Hollendinga? [Kliður í þingsal.]