139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Vinna fjárlaganefndar og það frumvarp sem hér liggur fyrir endurspegla augljóslega erfiða stöðu ríkissjóðs. Markmið frumvarpsins eru þau að ná þeim tölusettu markmiðum sem stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sömdu um haustið 2008 í ríkisfjármálum um afkomu. Jafnframt er gert ráð fyrir lítils háttar rekstri í landsframleiðslu, verðbólga er því sem næst komin niður að settu marki og vextir hafa að sama skapi lækkað verulega. Við þau tímamót sem fjárlagafrumvarpið óneitanlega er er ekkert óeðlilegt að menn spyrji sig hvert við stefnum, á hvaða leið við erum í ríkisfjármálum.

Þegar við lítum upp úr fjárlagafrumvarpinu og þeirri niðurstöðu sem þar greinir, horfum yfir viðfangsefnið í stærra og breiðara ljósi, lítur myndin kannski út með öðrum hætti en þeim að við séum að halda áætlun með AGS að öllu leyti. Þess ber nefnilega sérstaklega að geta að í samstarfsáætluninni var gert ráð fyrir hraðari hagvexti en raun hefur orðið á og í stefnir. Sömuleiðis hafa væntingar ekki ræst um það að krónan mundi skila þjóðinni nauðsynlegum hagvexti svo unnt verði að hefja endurreisn efnahagslífsins. Ástæður þess liggja m.a. í rangri skattstefnu, óvissu í sjávarútvegsmálum, andstöðu við auðlindanýtingu og erlenda fjárfestingu ásamt pólitískum óstöðugleika. Við þessar aðstæður bætist síðan að þjóðin býr við gjaldeyrishöft sem vinna gegn nýsköpun og nauðsynlegum viðgangi og vexti atvinnulífsins. Allir þessir þættir sem ég hef rakið hér bjóða síðan hættunni heim varðandi hugsanlegan atgervisflótta frá landinu.

Seðlabankinn birti spá sína um hagvöxt fyrir skömmu. Bankinn gerir ráð fyrir því í spá sinni núna að samdráttur í landsframleiðslu á þessu ári verði meiri en talið var fyrir ári í spá bankans þá og að hagvöxtur næsta árs verði minni en áður var gert ráð fyrir. Jafnframt kom fram hjá Seðlabankanum að hagvöxtur yrði á næstunni einkum drifinn áfram af aukinni einkaneyslu og að fjárfestingar atvinnulífsins yrðu í sögulegu lágmarki.

Til viðbótar þessum fyrirvörum sem Seðlabankinn er að senda og setja á flot eru miklar efasemdir uppi hjá sérfræðingum á þessu sviði um þennan vöxt í einkaneyslunni og þarf ekki að fara lengra en til forsvarsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hafa umsjón með framgangi samstarfsáætlunar hér á landi, en þeir hafa sett ríka fyrirvara um þennan þátt í spám um hagvaxtarþróun innan lands, þ.e. því sem lýtur að einkaneyslu, og telja forsvarsmenn AGS að ekki sé innstæða fyrir því að meta drifkraft einkaneyslunnar með þeim hætti sem menn hafa gert hér.

Til viðbótar þessu benda flestar aðrar spár sem við höfum fengið spurnir af og skoðað til þess að a.m.k. næstu þrjú ár miði í sömu átt. Ef þetta gengur allt saman eftir mun að öllu óbreyttu stefna í að Íslendingar lifi fremur á lánum en verðmætasköpun á næstu árum og það er ekki gott upplegg. Reynslan kennir að slíkt endar ekki nema á einn veg, hagvöxtur sem ekki byggir á framleiðslu heldur lántökum og neyslu leiðir til dýpri kreppu en þyrfti að vera.

Mikið hefur verið rætt um forsendur fjárlagafrumvarpsins og við sem stöndum að þessu áliti, 1. minni hluti fjárlaganefndar, sem samanstendur af okkur þremur einstaklingum, fulltrúum þingflokks Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, auk þess sem hér stendur hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, erum sammála um það, ásamt raunar mörgum öðrum, að forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta séu byggðar á mjög veikum grunni. Öllum þeim sem horfast í augu við raunveruleika íslenskra efnahagsmála má vera ljóst að til þess að vinna þjóðina út úr þeim erfiðleikum sem við er að glíma verða stjórnmálamenn, almenningur og forsvarsmenn á vinnumarkaði að snúa bökum saman. Það verða allir að leggja sitt af mörkum til lausnar á þeim gríðarlega erfiðu viðfangsefnum sem við er að glíma. Forsenda þess að ná árangri við þau verkefni er að hægt sé að skapa breiða samstöðu um úrlausn verkefna.

Af þessu tilefni teljum við rétt að ítreka og undirstrika að 1. minni hluti fjárlaganefndar gerði stjórnarmeirihlutanum það boð við afgreiðslu fjárlaga núna og við gerð fjárlaga ársins 2010 að eiga samstarf um lækkun og hagræðingu í ríkisrekstrinum að upphæð 8 milljarðar kr. þá. Því boði var því miður hafnað af stjórnarmeirihlutanum fyrir fjárlagagerð ársins 2010. Við buðum með sama hætti upp á samstarf við hagræðingu í frumvarpi 2011, þó ekki tölusett. Því var aftur hafnað.

Ég tel hins vegar alveg augljóst að af þeim tillögum sem meiri hlutinn gerir til breytinga á fjárlagafrumvarpinu nú fyrir 3. umr. sé hægt að ráða að stjórnarmeirihlutinn ráði ekki almennilega við og hafi í sumum tilvikum gefist upp á þeim sparnaðarráðstöfunum sem ætlunin var að grípa til. Það er hins vegar óhjákvæmilega verkefni sem verður að vinna. Ég er þó þeirrar skoðunar að öllu alvarlegri sé sá litli skilningur sem virðist vera á því hvert grundvallarsamhengi hlutanna er í þessum efnum, þ.e. það er brýn þörf á að skapa skilyrði til að tekjur þjóðarbúsins aukist eigi það að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem á því hvíla.

Að undanförnu hefur verið látið í það skína að erfiðasti hjallinn í fjárlagagerðinni sé að baki með því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég tel rétt að benda í því sambandi á að til þess að ná markmiðum um heildarjöfnuð í ríkisfjármálum árið 2013 þarf að ná hallarekstri ríkissjóðs niður um ríflega 37 milljarða kr. á tveimur árum. Í þessu sambandi ber einnig að nefna að þá er ekki tekið tillit til hugsanlegra útgjalda ríkissjóðs vegna svokallaðra samninga um Icesave-reikninga Landsbankans. Vonir lágu til þess að hagvöxtur mundi vinna að verulegu marki á hallanum, en eins og ítrekað hefur verið eru hagvaxtarspár og -horfur á niðurleið frá því sem áður var og því miður sjáum við í úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd fjárlaga vísbendingar um að mjög mikilvægir tekjustofnar skili ekki þeim tekjum sem ætlunin var að ná á árinu 2010. Gangi eftir þessir fyrirvarar sem ég er að nefna hér er alveg augljóst að viðfangsefnið við fjárlagagerð áranna 2012 og 2013 verður til muna stærra og erfiðara úrlausnar en að þar liggi einungis 37 milljarðar kr. þó að það sé gríðarlega há fjárhæð. Ef þessir þættir ganga eftir er viðfangsefnið orðið enn erfiðara úrlausnar.

Ég undirstrika að í öllum málflutningi okkar sjálfstæðismanna höfum við alltaf undirstrikað að mjög brýnt er að markmið um sjálfbæran ríkissjóð nái fram að ganga. Það er meginforsenda þess að hagkerfinu verði aftur stýrt á rétta braut. Útgjöldum ríkissjóðs hefur verið leyft að vaxa nær hömlulaust undanfarin ár án þess að grundvöllur væri fyrir þeim vexti til lengri tíma. Óhjákvæmilegur niðurskurður opinberra útgjalda er ekki auðveldur í framkvæmd, svo sem dæmi undanfarinna vikna sanna, og síðustu daga raunar. Ástæður þessarar hörðu andstöðu má fyrst og fremst skýra að mínu mati með illa grunduðum tillögum og algjörum skorti á samráði við hagsmunaaðila. Þá hafa stjórnvöld gengið með nýjum álögum mjög langt í að þurrausa tekjumöguleika ríkissjóðs. Við sjáum þess stað í samdrætti mikilvægra skattstofna sem ég nefndi áðan langt umfram áætlanir og í þeim umræðum sem orðið hafa um fjármagns- og fyrirtækjaflótta sem borið hefur mjög á að undanförnu.

Það er mat okkar í 1. minni hluta að verði ekki snúið af þessari braut sé hætt við að ríkisstjórnin lokist inni í vítahring skattahækkana og niðurskurðar til að bæta upp dræmar vaxtarhorfur hagkerfisins.

Þetta er verulegt íhugunarefni og kallar á að við förum þokkalega vel og til muna betur en við höfum gert yfir allar forsendur fjárlaga og hvaða möguleikar eru til að vinna úr því.

Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu eins og það birtist alþjóð í byrjun október að markmið þess hafi verið að lækka útgjöld um 33 milljarða kr. og hækka skatta um 11 milljarða kr. Þegar við höfum síðan tillögur stjórnarmeirihlutans hér fyrir framan okkur við lokafrágang fjárlagafrumvarpsins og rýnum þær af þeirri mestu skynsemi og kunnáttu sem við höfum tök á, ég vil undirstrika að tíminn til þess hefur verið fremur knappur því að þær komu fram á fundi nefndarinnar í gærkvöldi, kemur berlega í ljós að þau markmið sem sett voru fram í upphaflegu fjárlagafrumvarpi ganga ekki eftir.

Ég vil þó undirstrika sérstaklega að tilteknir útgjaldaliðir hafa þurft að þola raunverulegan og sársaukafullan niðurskurð, það skal ekkert undan dregið. Það á sérstaklega við um heilbrigðisþjónustu víða á landsbyggðinni. Að öðru leyti hefur lækkun útgjaldaliða byggt að verulegum hluta á frestun útgjalda. Slík aðferðafræði mun ekki duga til að tryggja sjálfbærni ríkissjóðs til lengri tíma. Reksturinn sjálfan þarf að laga að breyttum aðstæðum.

Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á skattkerfinu frá miðju ári 2009 og boðaðra breytinga á næsta ári má ætla að heildaráhrif allra tekjuaðgerða í fjárlögum ársins 2010 og frumvarpi ársins 2011 nemi um 152 milljörðum kr. Ef við lítum til útgjaldahliðarinnar á sama tíma í fjárlögum ársins 2010 og í frumvarpinu fyrir árið 2011 má ætla að útgjöldin hafi hins vegar lækkað á verðlagi hvors ár samtals um 50 milljarða kr. Þegar við skoðum það nánar sjáum við að í áætlanagerð um vaxtagreiðslur lækkuðu þær — þar var um að ræða frávik upp á 25,5% þannig að vaxtagreiðslur lækka um 20 milljarða kr., þ.e. sem nemur hátt í helmingi þessarar útgjaldalækkunar, um 40%. Þetta þýðir þá að aðrir útgjaldaliðir hafa lækkað um 30 milljarða kr.

Ég vil þó geta þess við þennan samanburð og við þessa úttekt að við verðum að hafa fyrirvara á þessari tölu einfaldlega af þeirri ástæðu að framsetning gagna við vinnu fjárlaganefndar er með þeim hætti að það er illgerlegt fyrir fjárlaganefndina að fá heildarmynd af þeim aðgerðum sem verið er að grípa til. Þetta eru atriði sem við verðum að bæta, þ.e. upplýsingagjöf til nefndarinnar og möguleika hennar til að vinna úr þeim upplýsingum. Við sátum yfir þessum atriðum og reyndum að rýna í þau í kringum miðnætti í gærkvöldi og það er tæpast boðlegt annað þegar maður kynnir þetta en að hafa og setja þennan fyrirvara. Engu að síður sýnir þessi stutta úttekt að það er töluverður munur á skattahækkunum og útgjaldaliðum og að tekjuaukinn hefur borið uppi þá hagræðingu sem menn hafa náð og tekið á varðandi efnahagsáætlunina.

Ég tel einboðið í ljósi þessara meginlína sem við skulum kalla svo, 152 milljarðar kr. á móti 50 milljörðum kr., að stjórnarmeirihlutinn hafi unnið að gerð fjárlaga með þeim hætti að augljóslega er erfitt innan búðar í þeim sama meiri hluta að ná samstöðu um meginlínur fjárlaganna. Þar af leiðandi er það fyrst og fremst heimatilbúinn vandi sem stafar af innbyrðis átökum. Ég nefndi hér áðan líka illa ígrunduð vinnubrögð í tengslum við fyrirhugaðan niðurskurð í ríkisrekstrinum. Það er líka skortur á hugmyndum, sérstaklega þar sem ekki er leitað eftir betra samstarfi. Jafnframt vil ég nefna, sem ég vil ekkert víkja stjórnarflokkunum undan, að kjósendum voru gefin ákveðin fyrirheit fyrir alþingiskosningarnar 2009 um það hvernig ný ríkisstjórn mundi vinna. Að sjálfsögðu eru eðlileg viðbrögðin við þeim tillögum sem koma fram og ganga þvert á gefin fyrirheit, slík vinnubrögð munu kalla á mjög harða andstöðu meðal þeirra sem treystu stjórnarflokkunum fyrir atkvæði sínu.

Ég vil nefna hérna nokkur atriði um tryggingagjaldið sem hefur verið allumdeilt. Atvinnulífið gekk fram fyrir skjöldu og bauð fram að það skyldi taka á sig útgjöld vegna hækkandi atvinnuleysis og samþykkti þar af leiðandi hugmyndir í þá veru að hækka tryggingagjaldið í ljósi þess að atvinnustigið var að versna, þ.e. atvinnuleysið jókst og þá var atvinnulífið þeirrar skoðunar að það mundi hvort eð er bera þennan kostnað. Nú hefur komið á daginn að atvinnuleysið reynist sem betur minna en menn ætluðu og var gert ráð fyrir og því væri eðlilegt að lækka gjaldið að nýju þannig að atvinnulífið gæti fremur nýtt það fjármagn til fjárfestinga og atvinnuuppbyggingar en að greiða það sem skatt til ríkissjóðs. Í mínum huga eru það ákveðin griðrof í því samkomulagi sem gert var á milli stjórnvalda og vinnumarkaðarins ef ríkissjóðurinn gerir alvöru úr þeim áformum að viðhalda háu tryggingagjaldi við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Það er vert að geta þess hér að hækkun tryggingagjaldsins eykur sömuleiðis útgjöld fjölmargra sveitarfélaga, um 2,7 milljarða kr. Í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu fjölmargra sveitarfélaga lýsum við í 1. minni hlutanum yfir áhyggjum af þessari tilfærslu frá sveitarfélögum til ríkisins. Sveitarfélögin eru stærsti launagreiðandi landsins á eftir ríkissjóði og því koma þessar breytingar mjög hart við þau. Sveitarfélögin hafa kynnt það fyrir ekki mjög löngu að áætlanir þeirra gefi til kynna að tekjutap þeirra milli áranna 2010 og 2011 muni nema u.þ.b. 7 milljörðum kr. Öll vitum við hér í þessum sal að svigrúm sveitarfélaga til að mæta þessu tekjutapi er ekki sambærilegt við það sem ríkissjóður hefur.

Við í 1. minni hluta áteljum það að við þessar aðstæður sveitarfélaganna skuli ríkisstjórnin ekki í það minnsta endurgreiða seinni hluta tryggingagjaldsins líkt og gert var á árinu 2010.

Ég ítreka sömuleiðis ábendingar okkar og athugasemdir við þeim veikleika í fjárlagagerðinni að í tekjuhluta frumvarpsins er gert ráð fyrir að laun á almennum markaði hækki og skili samsvarandi hækkun tekna til ríkisins. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir launahækkunum handa ríkisstarfsmönnum og við hljótum að ætla að útgjöld ríkisins séu að þessu leytinu til vanmetin sem nemur mögulegum launahækkunum í komandi kjarasamningum. Við bendum á að það er afar ólíklegt að svo fari að starfsmenn í opinberri þjónustu, hjá ríkinu sérstaklega, muni sætti sig við áframhaldandi launalækkanir komi til þess að laun á almennum vinnumarkaði hækki líkt og gengið er út frá í forsendum fjárlaga, um 4–5% launabreytingar á almennum vinnumarkaði.

Ég vil þó sérstaklega geta þess hér að það hefur komið fram í viðtölum sem fjárlaganefnd hefur átt við forstöðumenn heilbrigðisstofnana að starfsfólk í þeim stofnunum, í láglaunastörfum í mörgum tilvikum, fái ekki notið ýtrustu ákvæða kjarasamninga, t.d. varðandi kaffitíma eða matartíma. Starfsfólk tekur með öðrum orðum á sig ákveðnar byrðar með þessum hætti sem lýtur að launum. Þá er það náttúrlega að allra réttsýnna manna mati og áliti gjörsamlega óásættanlegt að á sama tíma koma fyrir fjárlaganefnd forstöðumenn einstakra stofnana þar sem þeir kvarta undan því að geta ekki ráðið til sín starfsmenn nema að uppfylltum ákveðnum launakröfum. Ég held að ég sé ekki að upplýsa nokkurn skapaðan heilagan hlut þegar ég greini frá því að almenna viðmiðunin í þessu sambandi er á bilinu 500–550 þús. kr. á mánuði. Við höfum fengið til okkar forstöðumenn sem tala um þetta á þessum nótum og höfum raunar eitt dæmi um að áætlaður kostnaður við ráðningu eins lögfræðings til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins er 10 millj. kr. Embætti sérstaks saksóknara var með ákveðnar viðmiðanir um laun. Umboðsmaður Alþingis. Ég gæti talið fleiri svona viðmiðanir. Þetta er veruleiki sem við getum ekki látið ganga með þessum hætti öllu lengur. Það verður einhvern veginn að taka á þessum efnum, misskiptingunni varðandi möguleika fólks til þessara kjarabóta ef við getum sagt sem svo. Þetta gengur ekki svona og á ekki að ganga svona. Það virðist vera launaskrið í hærri hluta tekjuhópa hjá ríkinu á meðan þjarmað er að tekjulægri hópum eins og við höfum upplýsingar um. Ég treysti því að á þessu verði tekið af ábyrgð og röggsemi. Þetta ósamræmi getur með öðrum orðum ekki endað nema með sprengingu og það er óþarfi að til þess komi.

Ég vil enn fremur nefna hér dulinn halla sem við í 1. minni hluta fjárlaganefndar, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, höfum yfirleitt alltaf haldið mjög stíft fram í umræðunni. Í samningi sem fjármálaráðherra gerði við skilanefnd Kaupþings banka í júlí 2009 var því lýst yfir að stjórnvöld muni halda Kaupþingi banka og Nýja Kaupþingi banka skaðlausum vegna kröfu þess síðarnefnda á hendur Dróma ehf. vegna yfirtöku innstæðuskuldbindinga sem gengið var frá með skuldabréfi að fjárhæð 96,7 milljarðar kr. Ríkissjóðurinn ber fjárhagslega ábyrgð gagnvart bankanum ef greiðslufall verður af skuldabréfinu. Samkvæmt því er skuldbindingin byggð á ákveðinni grein laga um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, svokölluðum neyðarlögum. Í framangreindu samkomulagi sem ég er að gera hér að umtalsefni felst skuldbinding af hálfu ríkisins, ég undirstrika það, sem kann að leiða til útgjalda á næstu árum en hennar er ekki getið í ríkisreikningi. Sambærilegar skuldbindingar eru í gildi vegna yfirtöku Íslandsbanka á skuldbindingum Straums – Burðaráss. Þar er fjárhæðin upp á 43,7 milljarða kr. skuldabréf sem gefið var út, ástarbréf eins og menn hafa kallað þau. Ég vil nú geta þess hér að ég skil ekki hvaða ást liggur í slíkum gjörningum en það er annarra sem betur þekkja til að skýra það út. Þetta er gert og afhent þess í stað ríkisskuldabréf sem eru hæf til notkunar í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann.

Ákvæði þessa bréfs eru þannig að ef Íslandsbanki hefur ekki fengið fullnaðarafgreiðslu skuldabréfsins í mars árið 2013 er honum heimilt að halda eftir eftirstæðum skuldabréfum. Sömuleiðis er ekki gerð grein fyrir þessu samkomulagi í ríkisreikningi fyrir árið 2009. Með sama hætti undirstrika ég að þetta kann að leiða til útgjalda á næstu árum. Ég fullyrði ekki að þetta gerist en ég er þeirrar skoðunar og við í 1. minni hluta að tvímælalaust beri að greina frá ábyrgðum sem þessari í ríkisreikningi.

Þá viljum við nefna hér að við teljum ekki nægilega skýra grein gerða fyrir skuldbindingu ríkissjóðs á tónlistarhúsinu Hörpu, hvorki í ríkisreikningi né fjárlögum. Sú skuldbinding verður virk á næsta ári. Það er augljóst að starfsemi í húsinu verður vart látin fara í þrot reynist reksturinn ekki standa undir skuldum þótt starfsemin sé rekin í hlutafélagaformi.

Sömuleiðis liggur fyrir að ekki hefur verið gengið frá samkomulagi við lífeyrissjóðina um að þeir muni ekki taka tillit til bóta almannatrygginga við samanburð á tekjum örorkulífeyrisþega fyrir og eftir örorkutap. Það er óhjákvæmilegt að ætla að þarna ríki töluverð óvissa um þann 700 millj. kr. fyrirhugaða sparnað á fjárlögum sem ná átti fram með þessum samningum. Sömuleiðis vil ég nefna hér að eins og kom fram í ræðu hv. formanns fjárlaganefndar og andsvörum við henni er ekki búið að ganga frá samkomulagi við lífeyrissjóði og fjármálastofnanir um 6 milljarða kr. innheimtu tekna á móti sérstakri tímabundinni viðbót í vaxtabótakerfinu.

Til dulins halla telst líka uppgjör skulda við ýmsar stofnanir, þar á meðal heilbrigðisstofnanir. Stærst inni þar var uppgjör við Landspítalann upp á 2,8 milljarða kr. Þetta er ófrágengið og hefur ekki verið gert upp. Í því samhengi má nefna að hér er um að ræða nokkurra milljarða króna uppgjör sem á eftir að gera. Ég vil enn fremur nefna málefni Byggðastofnunar. Í fjárlagagerðinni er uppi tillaga um að eiginfjárstaða Byggðastofnunar verði styrkt um 1 milljarð kr. með beinu framlagi úr ríkissjóði. Það er almælt og það upplýstu stjórnarformaður og forstjóri stofnunarinnar á fundi með fjárlaganefnd að að þeirra mati þarf 3,5 milljarða kr. til að koma stofnuninni fyrir vind í þessum efnum. Þar af leiðandi á eftir að leysa fjármögnun í þessum efnum upp á 2,5 milljarða kr. Forsvarsmenn Byggðastofnunar greindu frá því á fundi með fjárlaganefnd að þau hefðu í upphafi gert grein fyrir því hver fjárþörf stofnunarinnar væri til að koma eiginfjárgrunni hennar á réttan kjöl. Við þeim óskum hefur ekki verið orðið. Þar af leiðandi eru þau neydd til þess að setja fram óskir á hverju ári, koma fyrir fjárveitingavaldið og ráðuneytin og biðja sýknt og heilagt um að stofnunin fái að starfa á grundvelli þeirra laga sem um hana gilda. Þetta er að minni hyggju óþolandi aðstaða sem forsvarsmenn þessara stofnana eru settir í. Það liggur fyrir að ríkissjóðurinn kemst ekki undan því að standa við þær skuldbindingar sem þarna eru á ferðinni. Byggðastofnun hefur ríkisábyrgð á öllum sínum skuldbindingum. Samtals námu þær í ríkisreikningi rúmum 22 milljörðum kr. þannig að við komumst ekkert hjá því að takast á við þetta vandamál. Ég held að umræðan um Byggðastofnun hafi á mörgum tímum verið afskaplega neikvæð á grunni ónógra upplýsinga um það með hvaða hætti þessari stofnun er ætlað að starfa. Það er ósanngjarnt að gera því fólki sem þar er í forsvari og sinnir þeim störfum, hvort tveggja í stjórn og starfsmönnum stofnunarinnar, að ganga þessa götu sýknt og heilagt.

Ég vil loks nefna Íbúðalánasjóð. Þar ríkir enn þá töluverð óvissa um fjárhagslega stöðu þess sjóðs að því leytinu til að fjáraukalögin sem við gengum frá um daginn á Alþingi gáfu fjármálaráðherra heimild til að styrkja eigið fé sjóðsins um allt að 33 milljarða kr. þrátt fyrir að ekki væri þá ljóst, og það er raunar ekki enn, hver hinn eiginlegi fjármögnunarvandi væri. Við í 1. minni hluta teljum að raunhæfar áætlanir um eiginfjárþörf sjóðsins hefðu átt að liggja fyrir áður en ákveðið var að veita heimild fyrir framangreindum framlögum. Þá liggur ekki fyrir hvort töpuð útlán verða afskrifuð í ársreikningi ársins 2010 eða þau komi til gjalda í reikningi ársins 2011.

Vegna þeirra fyrirvara sem ég er að fara hér í gegnum úr nefndaráliti okkar vil ég nefna að síðustu þær hugmyndir sem uppi hafa verið um samgönguframkvæmdir. Áður en ég kem að textanum í áliti okkar beinist gagnrýni okkar og umfjöllun ekki að framkvæmdunum einum og sér. Við höfum verið talsmenn þess að koma á þeim samgöngubótum sem þarna hafa legið undir en þær athugasemdir sem við gerum lúta að málsmeðferðinni og því hvernig sú niðurstaða er fengin sem kynnt var nú um daginn.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram breytingartillögu við fyrirhugaðar stórframkvæmdir í samgöngumálum upp á 6 milljarða kr. framlag og endurlánaheimild úr ríkissjóði til væntanlegs hlutafélags. Upphaflega stóð til að lífeyrissjóðir fjármögnuðu framkvæmdir við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og göng undir Vaðlaheiði. 1. minni hluti telur að forsendur hafi brostið fyrir samþykkt Alþingis á verkefninu. Ástæður þess eru þær að verkefnið var samþykkt þegar talið var að veggjald mundi nema 160 kr. og yrði greitt út af öllum stofnbrautum. Umræða síðustu daga hefur verið um kílómetragjald sem verði allverulega hærra en áður var gert ráð fyrir. Um það verður að segja að nýr grunnur að þessu máli hefur lítt verið kynntur í fjárlaganefnd. Ég held að óhætt sé að orða það með þeim hætti. Hvorki viðskiptaáætlun né áhættumat hefur verið lagt fram né kynnt. Við í 1. minni hluta teljum nánast vítavert að samgönguframkvæmdir að fjárhæð 40 milljarðar kr. verði samþykktar og staðfestar án þess að Alþingi hafi átt þess kost að kynna sér og ræða nýjar forsendur fyrirhugaðra framkvæmda.

Ég vil svo, forseti, koma að lokum að þeim breytingartillögum sem 1. minni hluti fjárlaganefndar leggur fram. Það er vaxandi skilningur á því, bæði innan lands og ekki síður erlendis, að ríkisstjórn Geirs H. Haardes og Seðlabanki Íslands hafi brugðist rétt við hruni bankakerfis landsins. Bönkunum var ekki forðað frá falli með sama hætti og t.d. Írar gerðu, þ.e. að leggja ómælda fjármuni almennings inn til varnar þeim. Með þeim ráðstöfunum sem gripið var til sköpuðust færi til að vinna þjóðina á skemmri tíma en ella út úr þeim ógöngum sem fyrirsjáanleg kreppa leiddi yfir okkur. Hins vegar verður röng efnahagsstefna í kjölfar falls bankakerfisins ekki endalaust réttlætt með því að hér hafi orðið hrun. Hættan sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð er að aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda geti leitt til meiri samdráttar og aukinna erfiðleika við efnahagsstjórnina.

Eins og við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd höfum ítrekað í umræðu um fjárlög og fjáraukalög hefur þingflokkur okkar í þrígang lagt fram tillögur og hugmyndir sínar að úrlausn þeirra erfiðu verkefna sem við er að glíma. Síðast í nóvember lagði þingflokkurinn fram heildstæða þingsályktunartillögu í 41 tölulið, en tillagan miðaði að því að ýta undir verðmætasköpun í þjóðfélaginu og skapa störf. Samkvæmt þeim tillögum sem við höfum lagt hér fram er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um 40 milljarða kr. Ég undirstrika að þessar tillögur felast fyrst og fremst í breytingum á tekjuhlið ríkissjóðs.

Hér erum við með tillögur um 80 milljarða kr. tekjur af séreignarsparnaði. Þetta er tillaga sem sjálfstæðisþingmenn lögðu fram í frumvarpi síðasta haust. Við gerum jafnframt ráð fyrir því að skattar lækki frá 1. maí 2011 um 40 milljarða kr. Þar yrði undið ofan af þeim skattbreytingum sem við teljum hafa staðið mest í vegi fyrir því að atvinnulíf og einstaklingar næðu vopnum sínum og gætu átt möguleika á því að skapa hvata til að fjárfesting og atvinnurekstur færu í gang.

Við erum hér í þriðja lagi með tillögu um að auka þorskveiðiheimildir upp á 35 þús. tonn og gerum ráð fyrir að það verði gert á grunni aflamarkskerfisins eins og það liggur fyrir í dag. Gróft mat sem við höfum fengið á þessa hugmynd bendir til þess að við megum reikna með því að beinar tekjur ríkissjóðs aukist um 5 milljarða kr. vegna þessa. Sömuleiðis má geta þess til að gleðja þá sem það aðhyllast að auðlindagjaldið mundi hækka um 225 millj. kr. við þessa einu aðgerð.

Í fjórða lagi erum við hér með tillögu um lækkun á tryggingagjaldi sem er í rauninni aukinn skattur á vinnuafl og leiðir til fækkunar starfa. Við ætlum að það geti leitt til 6 milljarða kr. tekjulækkunar fyrir ríkissjóð. Ég vil þó geta þess í því sambandi að við það að lækka þetta gjald metum við stöðuna þannig að það skapist færi á aukinni atvinnu. Hvert starf sem hverfur af atvinnuleysisskrá bætir afkomu ríkissjóðs um 3 millj. kr.

Loks nefni ég vaxtagjöld sem þessar aðgerðir munu leiða til að dragist saman um sem nemur 2,7 milljörðum kr. að okkar mati. Ég hef hér fyrst og fremst rætt ákveðna afmarkaða þætti úr efnahagstillögum sjálfstæðismanna sem við lögðum fram í nóvember. Fjölmargar aðrar tillögur lúta beint að aðgerðum í atvinnumálum o.s.frv. sem ég hef ekki tekið tillit til og við erum heldur ekki með í breytingartillögum okkar. Þetta er ákveðinn grunnur sem við bjóðum upp á í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og vonumst til að því verði ágætlega tekið.

Við höfum gert okkur fullljóst að það eru skiptar skoðanir um þetta en þó höfum við orðið vör við það, sérstaklega á síðustu vikum, að menn hafa horft meira til þessara tillagna en áður var og metið það svo að hægt sé að nýta hluta af þessu til að bæta úr þeim erfiðu viðfangsefnum sem við er að glíma.

Ég undirstrika sérstaklega og legg mjög mikla áherslu á að það er beint samhengi á milli þeirrar tillögu okkar sjálfstæðismanna um að ríkissjóður taki til sín þann hluta skattsins sem hvílir í séreignarsparnaði og þess sem við leggjum fram um breytingar á skattkerfinu. Með öðrum orðum stöndum við ekki að því að flytja breytingartillögu um þessa séreignarsparnaðarleið til að forða því að ríkisútgjöld verði dregin saman. Við leggjum þetta þvert á móti fram til að stuðla að auknum vexti og viðgangi í samfélaginu á atvinnumarkaði og teljum að tekjuskattur ríkisins af séreignarsparnaðinum og breytingar á skattkerfinu verði að skoðast í samhengi.

Enn fremur má geta þess í þessum efnum að ef gengið verður til þessa verks mun létta mjög á fjárhag sveitarfélaga, einfaldlega vegna þess að sveitarsjóðirnir eiga geymda töluverða fjármuni á séreignarsparnaðarreikningum. Það er einboðið að ef þetta gengi eftir yrðu þeir fjármunir nýttir til greiðslu skulda sveitarfélaga fyrst af öllu, sérstaklega í ljósi þess að yfir ríkissjóði vofir að geta þurft að leggja út fé vegna ábyrgða sem kunna að falla á hann vegna skuldbindinga eða verkefna sem sveitarfélögin hafa staðið í.

Að lokum, forseti, þakka ég það samstarf sem hefur átt sér stað í fjárlaganefnd. Þar vinna menn undir mikilli tímapressu oft og tíðum. Fólk er þar á margan hátt sett í erfiða aðstöðu og ég tel að það hafi verið leyst mætavel. Sömuleiðis er álagið á starfsmenn þingsins, sérstaklega á fjárlagasviði, á þessum tíma gríðarlega mikið. Enn þá er engin bognun sjáanleg í því ágæta fólki þannig að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þökkum kærlega fyrir gott samstarf og væntum þess að svo verði áfram.