139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta, yfirgripsmikla og málefnalega ræðu. Ég ætla að spyrja hv. þingmann sömu spurningar og ég er búinn að spyrja í hv. heilbrigðisnefnd, hv. fjárlaganefnd og í dag hv. þm. Björn Val Gíslason og Sigmund Erni Rúnarsson um mál sem er mjög stórt og ekki um neinar smáupphæðir að ræða, hvorki meira né minna en 3.000 milljónir, og snýr að Sjúkratryggingum Íslands. Upplýst hefur verið í hv. fjárlaganefnd og sömuleiðis í hv. heilbrigðisnefnd að miðað við þær áætlanir sem hafa verið í gangi og miðað við þá stefnu sem hefur verið fylgt vantar 3.000 milljónir til þess að endar nái saman.

Ég vildi einfaldlega fá að vita hvernig menn ætla að ná því og vísa til þess — sem ég er líka búinn að gera í dag — að Ríkisendurskoðun lagði sérstaka áherslu á að slík stefnumótun kæmi eðli málsins samkvæmt fram frá hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarmeirihluta. Það hefur ekki verið gert í þessu máli og ég trúi því ekki að menn ætli að afgreiða fjárlögin án þess að vita hvernig þeir ætla að taka á málinu.

Ég þarf ekki að útskýra fyrir hv. þingmanni sem þekkir þau mál mætavel að hér er um afskaplega viðkvæm mál að ræða og ég veit líka að hv. þingmaður vill ekki lenda í því sama og við lentum í í fyrra. Við tókum þessa umræðu nákvæmlega eins í fyrra og þá kom engin stefnumótun frá ríkisvaldinu og niðurstaðan varð sú að mikill halli var á málaflokknum. Ég vildi því kanna hvort hv. þingmaður gæti upplýst þing og þjóð um þetta mál.