139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:09]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að nokkru leyti tekið undir með hv. þingmanni. Ef við tökum heilbrigðisstofnanirnar, af því að það kom fram mikil gagnrýni hvað varðaði heilbrigðisþjónustuna, þá voru við 2. umr. dregnar til baka nokkrar stofnanir vegna þess að það var vitað að það þyrfti að vinna það betur. Það var gert. Ég tek undir það að fyrir 3. umr. eiga aðeins að vera aðgerðir eins og núna, þegar búið er að ákveða að létta undir skuldavanda heimilanna vegna íbúðalána. Það er tekin pólitísk ákvörðun um að fara í verðlagsbætur á örorku og ellilífeyri. Slíkar breytingar eiga að koma inn við 3. umr.

Ég tek líka undir það að það er mikilvægt að við náum að breyta þessu hvað varðar safnliði og minni liði. Að þetta sé unnið í fagráðum á einhvern annan hátt en gert er því að um leið og gefið er eftir, og það var gert núna en kannski vegna þess að við sáum að við gátum slakað aðeins á, er svo erfitt að gera upp á milli. Það eru margir sem ekki höfðu sig í frammi og lýstu því hversu erfiðleikarnir yrðu miklir ef þeir fengju ekki 100 þúsund í viðbót eða hálfa milljón í viðbót, þeir sitja þá eftir.

Ég get líka sagt að vinnan sem fór fram í fjárlaganefnd — það var farið yfir málin og það er ekki hægt að flokka þetta að mínu mati undir kjördæmapot en við erum með mörg verkefni úti í kjördæmunum þar sem viðkomandi þingmenn þekkja betur til en aðrir og eru duglegri að bera skilaboð til nefndarinnar. En það var ekki afgreitt nema það væri vel ígrundað og fagleg rök væru þar að baki.