139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi farið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra hvað ég var að fjalla um í upphafi máls míns. Ég fjallaði í raun ekki um niðurstöðu fjárlagafrumvarpsins. Ég var að fjalla um þau vinnubrögð sem lögð voru til grundvallar og hvernig staðið hefði verið að málum innan stjórnarflokkanna. Það var það sem vakti mikla undrun mína og ég gerði að umræðuefni og hef svo sem áður vakið máls á. Þess vegna væri kannski fróðlegt fyrir okkur að fá að vita það núna frá hæstv. fjármálaráðherra sem er viðstaddur til að svara fyrir þetta: Með hvaða hætti var staðið að því að kynna forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir þingmönnum stjórnarliðsins?

Ég greindi frá því að á hverjum opinberum fundinum á fætur öðrum hefðu þingmenn stjórnarliðsins bara sagt frá því blákalt að þeir hefðu ekki haft hugmynd um hvað stæði í fjárlagafrumvarpinu, ekki látið sér detta í hug t.d. að skera ætti niður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, ekki rennt grun í að til stæði að beita aðhaldsaðgerðum með þeim hætti sem var gert eða breyta heilbrigðisstefnunni eins og boðað er í fjárlagafrumvarpinu. Það var það sem vakti mikla undrun mína og ég varð, eins og Njáll forðum, að láta segja mér það þrim sinnum áður en ég trúði því að einstakir þingmenn stjórnarliðsins, sem eðli málsins samkvæmt hlytu að bera jafna ábyrgð á við hæstv. fjármálaráðherra á fjárlagafrumvarpinu, hefðu virkilega látið fara svona með sig, hefðu sofið svona gjörsamlega á verðinum, aldrei látið sér detta í hug að spyrja einnar einustu spurningar, ekki haft hugmynd um að til stæði að herða að í rekstri heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og hefðu látið það koma sér svo gjörsamlega á óvart. Nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Var þetta virkilega svona?

Varðandi niðurgreiðslurnar til húshitunar þá bara blasa tölurnar við. Samkvæmt frumvarpi hæstv. ráðherra á ríkissjóður að fá 216 millj. kr. við að hverfa frá endurgreiðslufyrirkomulaginu en nú er skilað til baka 140 millj. kr. Þó að kerfið kunni að hafa verið óskynsamlegt og allt það (Forseti hringir.) liggja þessar tölur bara á borðinu. Nettóhagnaður ríkissjóðs er þá mismunur á þessum tölum eða um 60 millj. kr.