139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki fallegur leikur hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að reyna að koma hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Alþýðuflokkinn. (KLM: Þú ert nú … upprunavottorð.) Enn heldur hv. þm. Kristján L. Möller áfram. Ég get upplýst Siglfirðinginn (Gripið fram í.) að það var nú ekki … (Gripið fram í: … frá Siglufirði.) Ef við förum út í þau mál held ég að mikið af þeim kjósendum sem hv. þm. Kristján L. Möller telur vera sína séu komnir á rétta braut. Tel ég mig eiga einhvern þátt í því enda eiga þeir sem voru hægri kratar hér í eina tíð nú ekki mikið sameiginlegt með hinni svokölluðu Samfylkingu. Það væri athyglisvert að lesa nú bókina eða blaða í Sovét-Íslandi því að það voru einmitt sósíalistarnir sem notuðu mikið hugtakið „samfylking“ og ber kannski núverandi flokkur svolítið þess merki, af áherslum hans. En hv. þm. Kristján L. Möller er alveg, ég veit ekki hvað skal segja, afskaplega einangraður þegar hann talar fyrir (Gripið fram í.) framförum í atvinnumálum Samfylkingar og ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er eftir því tekið þegar hv. þingmaður segir þetta vegna þess að slíkt kemur ekki frá nokkrum einasta stjórnarliða, nokkuð eins og að leggja áherslu á hagvöxt og atvinnutækifæri, nema frá hægri kratanum hv. þm. Kristjáni L. Möller sem verður einangraðri og einangraðri með hverjum deginum í Samfylkingunni.

Við vorkennum að sjálfsögðu hv. þm. Kristjáni L. Möller og hvetjum hann til að átta sig á þessu. Það verða engar framfarir í landinu með ríkisstjórn undir forustu Samfylkingarinnar. Hér er enn þá fjórflokkurinn eins og hann var, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur. Það sem hins vegar hefur gerst er þetta: Alþýðubandalagið skiptist núna í tvo flokka, er einrátt í Vinstri grænum og í meiri hluta í Samfylkingunni — og það í stórum meiri hluta. Ég ætla ekkert að rekja það núna en úr því að hv. þm. Kristján L. Möller fór þessa leið er sjálfsagt að taka þetta undir liðnum Fjárlög íslenska ríkisins.

Þá tengist þetta nú allt saman vegna þess að fjárlögin bera öll einkenni þess að menn telji að hægt sé að vinna sig út úr vandanum með skattlagningu. Ríkisstjórnin hefur ekki aðeins hækkað skatta heldur hefur hún líka eyðilagt það einfalda skattkerfi sem aðrar þjóðir öfunduðu okkur af og er ansi hætt við því að erfitt verði að koma okkur af þeirri braut. Þegar allt syndaregistrið verður gert upp hjá ríkisstjórninni mun eitt af því sem stendur upp úr vera flækjustigið í skattkerfinu og munum við sjá endalaus vandamál í tengslum við það. Það er nokkuð sem við Íslendingar vorum búin að losna við. Það var ekki lengur þannig að t.d. ungt fólk sem var að koma út á vinnumarkaðinn lenti strax í miklum fjárhagsvandræðum út af eftir á greiddum sköttum og öðru slíku. Þetta er allt að koma aftur þökk sé núverandi ríkisstjórn.

Það var áhugavert að sjá svar við fyrirspurn frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem var dreift í þessari viku. Þar kom fram að skattar vinstri stjórnarinnar hafa hækkað skuldir heimilanna um 16.000 millj. kr. frá tímabilinu 1. febrúar til 1. október á þessu ári. Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hækkuðu skuldir heimilanna um 16.000 millj. kr. á þessu átta eða níu mánaða tímabili.

Við erum komin með vítahring fyrir fólkið í landinu. Það er búið að hækka skattana mikið. Þeir eru stighækkandi. Við erum komin með þessi jaðaráhrif sem voru kannski ekki horfin en þau voru ekki eins áberandi og áður. Það gerir það að verkum að heimili getur ekki unnið sig út úr vandanum eða það er mjög erfitt. Í ofanálag hækka skattarnir skuldirnar og því meira sem maður vinnur, því meira sem lagt er á sig, þeim mun hærri verða skattarnir hlutfallslega og því minni verða bæturnar þannig að maður verður algjörlega fastur í fátæktargildru. Þetta er eitt af fjölmörgu sem við höfum lítið rætt. Við höfum einfaldlega rætt lítið um skattana vegna þess að þessi illa ígrunduðu og undirbúnu fjárlög voru þess eðlis að stærstur hluti umræðunnar fór í einn málaflokk, heilbrigðismál, sem er auðvitað mjög mikilvægur en þó var ekki tekið á stærstu þáttunum í þeim málum.

Atvinnumálin og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar er þess eðlis að hún hefur fyrst og fremst komið í veg fyrir að hér séu tækifærin nýtt. Þó sjáum við núna eftir tveggja ára tímabil ríkisstjórnarinnar jákvæða hluti, þá er ég að vísa í mál sem einhverjum finnst kannski vera lítil en eru stór. Nú hefur núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra aflétt Ögmundarbanninu á útleigu á skurðstofum á Suðurnesjum. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, lagði sérstaklega á sig að koma í veg fyrir að þetta yrði gert. Þarna eru nýjustu og bestu skurðstofur á landinu búnar að standa ónotaðar frá 1. mars á þessu ári, mjög lítið notaðar fram að þeim tíma, það er jafnvel fullyrt að önnur af þessum tveimur glænýju skurðstofum hafi aldrei verið notuð, ég þekki það ekki og sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Aðalatriðið er þetta: Strax um áramótin 2008/2009 voru aðilar tilbúnir að leigja þessar skurðstofur, bæði fyrir innlenda starfsemi og sömuleiðis til þess að flytja inn sjúklinga annars staðar frá. Það hefði þýtt meiri umsvif á þessari heilbrigðisstofnun, þessum spítala, en nokkurn tímann áður. Það hefðu verið fleiri atvinnutækifæri fyrir fagfólk á staðnum með öllu því sem því tilheyrir. Fólkið hefði ekki þurft að vera á atvinnuleysisbótum og tekjur hefðu komið inn í samfélagið, bæði fyrir sveitarfélögin og sömuleiðis fyrir ríkissjóð. En ríkisstjórnin og þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra kom með handafli í veg fyrir atvinnutækifærin. Ég var að lesa í blöðunum að hann hefði haldið áfram eineltinu á þessu svæði og komið í veg fyrir að hægt væri að nýta aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli. Það er ótrúlegt við þær aðstæður sem hér eru þar sem þúsundir manna ganga atvinnulausir og sérstaklega á þessu svæði að slíkar séu áherslurnar hjá hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna skal hv. þm. Kristján L. Möller ekki furða sig á því þegar einhver úr ranni stjórnarliðanna kemur og talar um mikilvægi þess að fá hagvöxt og aukin atvinnutækifæri að fólk lifni við í þingsalnum og komi og hrósi viðkomandi því að við finnum varla annan þingmann stjórnarliðsins sem talar með þessum hætti, hvað þá framkvæmir. Dæmin sem ég nefndi eru jafnljóslifandi og dæmi geta orðið.

Hér var talað um umferðarmál. Ég held að það sé eitt af því sem við þurfum að fara miklu betur yfir. Ég hef miklar áhyggjur af þeim áherslum sem þar koma fram. Eitt er hugmyndirnar varðandi veggjöldin, við skulum ekkert blekkja okkur á því að við munum aldrei finna þá leið sem allir verða sáttir við. Þetta er langt frá því að vera einfalt. Við komumst ekkert hjá því og menn geta ekki vísað því fram í framtíðina að skoða þessi mál, það þarf að gera það strax. Í upphafi skyldi endirinn skoða. Við skulum ekki byrja á því að setja einhverja hluti af stað og vonast til þess að allt lagist. Það er óskynsamlegt. Sömuleiðis held ég að sé mjög mikilvægt að við skoðum áherslurnar. Ég lít svo á að við verðum að skipuleggja umferðarmálin á landinu út frá því að umferðin sé greið og góð og að lögð sé áhersla á umferðaröryggi. Við horfum núna upp á tölur frá Umferðarstofu þar sem alvarlegum slysum hefur fjölgað um, ef ég man rétt, 20% á milli ára — 20%. Að baki hverju alvarlegu umferðarslysi, þá er ég að vísa í alvarleg slys á fólki, er mikill mannlegur harmleikur. Við getum komið í veg fyrir umferðarslys. Við getum gert það með því að skipuleggja umferðarmannvirki rétt. Við eigum mjög góðan gagnagrunn, virðulegi forseti, sem allir geta farið í á netinu þar sem við getum séð alla þá rauðu punkta þar sem slys hafa orðið. Við eigum að einbeita okkur að því að koma í veg fyrir að slys verði á þeim stöðum. Við vinnum ekki eftir því núna. Reyndar villir þessi gríðarlega áhersla á hina svokölluðu 2+2 vegi mönnum sýn. Aðrar þjóðir leggja miklu meiri áherslu á 2+1. Sú þjóð sem hefur komist lengst í umferðaröryggismálum, Svíar, hefur þróað þann þátt mjög vel. Það er bæði ódýrara og öruggara að fara þá leið ef rétt er á málum haldið. Ég hvet þá aðila sem fara með þessi mál að fara vel yfir þetta og skoða þá leið vel því að við getum komist miklu lengra í vegaframkvæmdum, og víst er nú eftirspurnin næg, ef við förum hana.

Ég er að vísu með fyrirspurnir hér fyrir þinginu til hæstv. samgönguráðherra um hvaða staðlar séu notaðir í Svíþjóð sem er komið lengst varðandi fjölda bíla á bak við 2+1 og 2+2. Ég hvet aðila til þess að kanna þau mál.

Ég nefndi hér áðan að heilbrigðismálin hefðu verið mest í umræðunni. Ekki sýti ég það að menn ræði heilbrigðismál en það kemur ekki til af góðu. Það kemur til vegna þess að ríkisstjórn samráðs, samvinnu og samræðustjórnmála undir þessari styrku verkstjórn — allir eru búnir að gleyma því enda hljómar það eins og lélegur brandari þegar menn vísa til þess að ríkisstjórnin hafi verið stofnuð til að tryggja góða verkstjórn. Ég veit þetta hljómar eins og fullkomið grín en það eru ekki nema tvö ár síðan Samfylkingin sannfærði sjálfa sig um að þetta væri málið. Aldrei held ég í sögu þjóðarinnar hafi verið daprari verkstjórn og varla á þeim tímum sem við höfum virkilega þurft á einhverju öðru að halda. Skýrt dæmi um það eru heilbrigðismálin. Ekki var talað við einn einasta mann. Hér koma stjórnarliðar upp í löngum röðum og segja: Við vissum ekkert um þetta. Hugsið ykkur! Þessar róttæku breytingar. Það hvarflaði ekki að hv. þingmönnum Vinstri grænna að segja neinum frá þeim, alls ekki að tala við neinn sem átti að koma þeim í framkvæmd og ekki systurflokkinn ef eitthvað er að marka hv. þingmenn Samfylkingarinnar því að ekki mundu þeir skrökva, virðulegi forseti. Ekki mundi það gerast.

Við sátum hér uppi með mikið slökkvistarf við að reyna að bjarga einhverjum útfærslum sem voru unnar í excel en tóku lítið mið af raunveruleikanum. Þegar (Gripið fram í.) hæstv. ráðherrar Vinstri grænna tóku við heilbrigðisráðuneytinu byrjuðu þeir á að henda allri þeirri vinnu sem þá var í gangi. Þá unnu 100 sérfræðingar frá heilbrigðisstofnunum úti um allt land að því (Gripið fram í.) að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna. Nú er hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, fyrir þá sem eru að fylgjast með þessari umræðu, gjörsamlega að fara á taugum yfir þessari ræðu og hvet ég nú hv. þm. Björn Val Gíslason að reyna að ná honum niður. Er það alveg … (Gripið fram í.) Áfram heldur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem ítrekar að hann er að fara á taugum. Við sem spjöllum um þessi mál tökum því auðvitað með stóískri ró en ég hvet hv. þm. Árna Þór Sigurðsson til að fara í andsvar. Það er sú leið sem hann hefur og ef hann kann ekki að biðja um andsvar er ég sannfærður um að einhver hér inni getur aðstoðað hann við það.

Það voru eins og ég segi u.þ.b. 100 manns að vinna að undirbúningi að breytingum á heilbrigðisþjónustunni á sínum tíma. Það var fyrsta verk Vinstri grænna að henda þeirri vinnu út í hafsauga og leysa upp þessa hópa og fara frekar um landið og lofa því að ekkert yrði skorið niður og menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af nokkrum hlut. Þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að ekki yrði skorið meira niður en fólk vildi, ekki þyrfti að hafa áhyggjur af sameiningum eða neinu slíku. Menn geta síðan skoðað efndirnar sem koma fram í því frumvarpi sem nú liggur fyrir.

Því miður er það þannig, virðulegi forseti, að í þessum málaflokkum sem og öðrum hafa tvö orð farið í súginn. Verkefnið okkar er einfaldlega að endurskipuleggja velferðarþjónustuna, öryggismál og annað slíkt miðað við minni fjármuni. Við sáum haft eftir hæstv. fjármálaráðherra í einu blaði að þó svo það væri mjög erfitt verkefni að skera niður þá fælust í því ákveðin tækifæri. Ég held að það sé alveg hárrétt. En þau tækifæri hafa ekki verið nýtt. Þau hafa ekki verið nýtt til að undirbúa okkur fyrir breytta tíð.

Ég spurði t.d. hæstv. menntamálaráðherra út í það hvort tryggt væri í háskólakerfinu að niðurskurðurinn yrði faglegur, sömuleiðis hvort akademískt frelsi væri tryggt. Svar hæstv. ráðherra var einfaldlega nei. Svo væri ekki. Nú skyldi einhver segja: Er það hægt? Það er hægt. Það eru nefnilega til hlutlægir mælikvarðar á þessa þætti. Það eru þeir sem þær þjóðir sem leggja metnað í gott menntakerfi vinna eftir, hvort sem skorið er niður eða bætt í. Það sem við sjáum t.d. í menntakerfinu er mjög margt gott fólk. Það er eftirspurn eftir því góða fólki sem er að fara í aðrar háskólastofnanir. Það er gríðarlega mikið tjón fyrir íslenska þjóð, sérstaklega unga fólkið sem er hér í námi. Það er eitthvað sem við höfum ekki efni á. Við sáum hvaða skaða vinir okkar Færeyingar biðu af því við sambærilegar aðstæður sem þeir lentu í. Þá fluttu margir til annarra landa. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið að þó betur fari að ganga einhvern tímann að það fólk komi til baka. Fólk er þá búið að koma sér fyrir, jafnvel eru börnin orðin meiri útlendingar en Íslendingar og komin á þann aldur að fólk þarf að gera upp við sig ef það fer heim að börnin verði eftir og jafnvel barnabörnin í öðru landi. Þess vegna er svo mikilvægt að vanda til verka í menntamálum og öðrum málum. Það á svo sannarlega við um heilbrigðismálin. Ég hef haft af því miklar áhyggjur að við séum ekki að tala um stóru málin á þeim vettvangi. Ég er ekki að gera lítið úr heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið, alls ekki.

Komið hefur fram að menn vita ekki hvernig eigi að ná 3.000 millj. kr. sparnaði í sjúkratryggingum. Sjúkratryggingar eru sú þjónusta sem er hvað viðkvæmust, það eru lyfin, það eru S-merktu lyfin svokölluðu sem eru lyf fyrir þá sem eru hvað veikastir í þjóðfélaginu, það eru hjálpartækin, það eru tannlækningarnar, það er þjálfunin, það er brýn meðferð erlendis og lækniskostnaður og þá sérstaklega sérgreinakostnaðurinn. Ef við ætlum að ná árangri á þessu svið þurfum við að vinna faglega. Er það hægt? Já, það er hægt. Þær þjóðir sem við berum okkur saman við hafa gert það með þeim hætti að styrkja þann aðila sem semur um þjónustuna með kostnaðargreiningu þannig að hann viti hvernig við getum nýtt fjármunina sem best.

Síðastliðin tvö ár hafa menn meðvitað og af pólitískum ástæðum dregið lappirnar. Við í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hófum vegferðina með stofnun Sjúkratrygginga Íslands. Núverandi hæstv. ráðherra hefur ákveðið að fresta því að Sjúkratryggingar taki við lögbundnum verkefnum 1. janúar, en þá áttu þær að taka yfir samninga við hjúkrunarheimili og heilbrigðisstofnanir. Nú er öllum ljóst að þessi þjónusta verður ekki kostnaðargreind í einu vetfangi, það er stór vegferð, og komið á skýrum samningum sem aðilar hafa kallað eftir, hvort sem það eru fagfélög eða heilbrigðisstofnanir, Landspítalinn eða hjúkrunarheimilin, um hvaða þjónustu þau eiga að veita og hvað verði greitt fyrir þær. Það mun ekki gerast á einni nóttu. En hættan er sú að við séum að stoppa þessa vegferð, hægja á henni, jafnvel algjörlega hætta henni og það er mjög alvarlegt. Allir þeir aðilar sem ég nefndi, Landspítalinn, fagfélög hjúkrunarfræðinga og lækna og aðrir sem skiluðu inn umsögnum, hafa mælt gegn því að þessu sé frestað. Þeir vilja að Sjúkratryggingar Íslands taki þennan þátt yfir og að við förum að vinna hlutina eins og gert er í þeim löndum sem hafa náð bestum árangri hvað þetta varðar.

Þær hugmyndir og þær litlu umræður sem hafa verið hér benda til þess að annaðhvort skilja stjórnarliðar ekki út á hvað þetta gengur eða að vilji þeirra er virkilega að fara ekki þessa leið. Þá spyr ég, virðulegi forseti: Hvað vilja stjórnarliðar? Hvert vilja þeir fara? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. Henni hefur ekki verið svarað.

Nú skyldi einhver spyrja: Af hverju erum við að tala um þessa hluti? Eru þetta ekki tæknilegir hlutir sem litlu máli skipta? Nei, virðulegi forseti, þetta snýst um hvernig við ætlum að halda hér heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Það snýst um hvernig við ætlum að nýta þá fjármuni sem við höfum sem eru minni en hafa verið til þess að ná þeim markmiðum. Þetta snýst nefnilega bara um eitt: Þetta snýst um sjúklinga, þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

Mín reynsla er nú sú að þegar aðilar ræða saman, jafnvel þótt þeir séu með ólíkar pólitískar skoðanir, komast þeir oftar en ekki, sérstaklega í heilbrigðismálum, að sameiginlegri niðurstöðu. Ég bið stjórnarliða í mestu vinsemd að kynna sér málin, t.d. með því að bera sig saman við þá flokka sem þeir eru í sambandi við annars staðar á Norðurlöndunum og kanna hvaða stefnu þeir hafa og áherslur varðandi þessi máli. Ég held að niðurstaðan yrði sú ef menn gerðu slíkt að þeir yrðu sammála um þessi markmið, þ.e. að kostnaðargreina þjónustuna og vera með skýra samninga milli þeirra sem veita þjónustuna og þeirra sem borga fyrir hana sem er fyrst og fremst hið opinbera. Mikið liggur við, virðulegi forseti, hér er hvorki um meira né minna að ræða en heilbrigðismál þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég gæti nefnt fleiri þætti. Þetta á í rauninni við um allt sem snýr að ríkisrekstrinum. Við erum sammála um að við þurfum að fara í skipulagsbreytingar til þess að halda uppi þeirri þjónustu sem við viljum. Við þurfum að skipuleggja þjónustuna með öðrum hætti en við höfum getað áður vegna þess að við erum ekki með sömu fjármuni. Þótt þróun sé alltaf mikilvæg hefðum við kannski þurft að gera það hvort heldur sem er en það er aldrei mikilvægara en nú út af því efnahagslega áfalli sem við Íslendingar urðum fyrir. Við höfum alla möguleika á að geta haldið áfram að vera þjóðfélag í allra fremstu röð. Þá þurfum við að gera tvennt: Annars vegar þurfum við að vinna faglega að ríkisrekstrinum og hins vegar þurfum við að sjá til þess að við aukum tekjur ríkissjóðs — aukum tekjur ríkissjóðs. Við gerum það með því að ýta undir atvinnutækifæri og nýta þau tækifæri sem bjóðast. Við gerum það með breyttum áherslum í skattamálum. Það er kjarni málsins.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er að fara í þveröfuga átt. Fjárlagafrumvarpið er gott dæmi um það. Vandræðagangurinn, hinn pólitíski vandræðagangur ríkisstjórnarinnar er síðan efni í aðra mjög langa ræðu. Ég ætla að sleppa því að halda þá ræðu núna en vonast til þess að ríkisstjórnarflokkarnir horfist í augu við hið augljósa sem ég nefndi áðan. Það er annars vegar að vinna faglega að breyttum áherslum í ríkisrekstrinum og hins vegar að nýta atvinnutækifærin sem fela m.a. í sér að lækka skatta í landinu og einfalda skattkerfið.