139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

kynning fjárlagafrumvarps í stjórnarflokkunum -- nefndarfundur vegna söluferlis Sjóvár -- veggjöld o.fl.

[11:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er stór og mikil umræða, þessi umræða um vegtolla og veggjöld og augljóst að við erum heldur ekki alveg búin að tala okkur niður á það endanlega hvaða fyrirkomulag við mundum vilja hafa ef til kæmi. Ég tel hins vegar mikilvægt að hvernig svo sem það verkast lítum við svo á að ef við förum í þessar vegaframkvæmdir með þessum hætti núna sé þar með líka að losna fjármagn sem ætti þá að nýtast okkur til þess að ljúka við að leggja vegi landsins, þ.e. ljúka við stofnvegakerfið.

Minni ég nú enn eins og Kató gamli á ástand þjóðvega vestur á fjörðum þar sem ekki er búið að ljúka því verkefni að leggja grunnkerfið sem er auðvitað forsenda fyrir öllum samgöngum í landinu.

Ég get ekki stillt mig um að ræða aðeins vinnubrögðin við fjárlagafrumvarpið. Það er augljóst af þeirri umræðu sem hefur farið fram að hér takast á nýir tímar og gamlir varðandi vinnubrögð (Gripið fram í: Gamlir tímar …) þar sem gamli tíminn hrópar eins og hrímgaður þurs og getur ekki áttað sig á sveigjanleika og samræðuferli sem hlýtur að eiga sér stað (Gripið fram í.) við gerð fjárlagafrumvarpsins. (Gripið fram í.) Fjárlagafrumvarpið var lagt fram í október, það hefur síðan verið (Gripið fram í.) í mikilli og náinni umræðu og skoðun (Gripið fram í: Ekki hjálpar …) og höfundar þess hafa sýnt þann manndóm að geta tekið gagnrýni og geta tekið tillit til sjónarmiða sem fram hafa komið og brugðist við. Öðruvísi mér áður brá, og þarf ekki að leita mjög langt aftur í tímann. (Gripið fram í.)