139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður misskildi þetta, ég var ekki að tala um persónulega líðan. Ég var að vísa til þess að ef menn standa uppi með óleyst deilumál, eiga í átökum og eiga kost á lausn þurfa menn alltaf að vega og meta það hvort lausnin sé betri kostur en að halda stríðinu áfram. Það var til þess sem ég var að vísa og ef menn kjósa að halda slagnum áfram þarf að vega og meta hvaða kostnaður er því samfara. Hvernig verður ástandið á meðan menn halda deilunni við? Þetta er vandinn (Gripið fram í.) sem alltaf blasir við í stóru sem smáu, hvort sem menn eru í kjaradeilu eða öðrum átökum. Er það þess virði að halda slagnum áfram eða ganga að einhverju samkomulagi sem í boði er? Ég var að vísa til þess og ekki að tala um eitt eða neitt annað.

Já, tíminn hefur unnið með okkur. Að sjálfsögðu vinnur það með okkur að endurheimturnar hafa aukist til búsins og óvissan minnkað um hverjar verði raunverulegar endurheimtur, að meiri og meiri peningar eru (Forseti hringir.) í húsi. Það er til þeirra hluta, sem eru tvímælalaust jákvæðir, sem ég var sérstaklega að vísa.