139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:23]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þeir einu sem gera þá kröfu að hér sé unnið í byrjun janúar eru að sjálfsögðu hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra. Það hefur ekki komið fram nein krafa neins staðar annars staðar að um að það verði gert. Samninganefnd Íslands var spurð að því sérstaklega í tvígang hvort það lægi eitthvað á að afgreiða þetta mál og hvort það væri ekki æskilegt að þingið ræddi þetta af yfirvegun. Þeir sögðu báðir, Guðmundur ráðuneytisstjóri og Lee Buchheit, að aldrei nokkurn tíma hefði komið fram krafa eða kvöð frá Bretum og Hollendingum um að það lægi á að afgreiða þetta mál.

Það sem hv. þingmaður er að segja er að málið á að senda til umsagnar og það á að afla gagna. Ég er alveg sammála því, það er alveg rétt að nota þennan tíma til þess. En þar vil ég draga strikið. Ég vil draga strikið við það að fjárlaganefnd komi einfaldlega aftur saman og skipuleggi vinnu sína fyrstu vikuna eftir að jólahléi þingsins lýkur til að vinna kröftuglega í þessu máli en ekki meðan jólahlé þingsins stendur yfir. Ég tel það ranga nálgun. Ég tel það æðibunugang og til þess fallið að skapa meiri óróleika um þetta mál en þörf er á og hvet til þess að það verði ekki gert.