139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt örstutt andsvar við ræðu hv. þm. Róberts Marshalls. Það er mesti misskilningur að sú leið sem farin er í þessu frumvarpi minnki hið svokallaða svarta hagkerfi. Breytingin er sett inn í gjaldþrotalög en ekki lög um fyrningu. Fyrningarfresturinn er nú samkvæmt lögunum 4, 10 og 20 ár og er algengasti tíminn á þeim kröfum sem snúa að heimilum 4 ár. Þau lög eru í fullu gildi þrátt fyrir að þetta lagaákvæði komi hér inn og taki gildi. Eins og fram kom fyrir allsherjarnefnd stoppa kröfuhafar iðulega við árangurslaust fjárnám þannig að ekki kemur til gjaldþrotaskipta. Það eru ekki nema rúmlega 100 aðilar á ári sem fara alla leið í gjaldþrot þannig að ég vara við því að þetta mun vekja væntingar og hefur ekkert með hið svokallaða svarta hagkerfi að gera vegna þess að gjaldþrotatíminn líður eftir sem áður.

Það sem gerist hins vegar í árangurslausu fjárnámi er að kröfuhafar hætta að sækja viðkomandi skuldara og láta málið niður falla þrátt fyrir að fyrningarfresturinn tikki áfram í fjögur ár. Samkvæmt þessu þarf dómsúrskurð.

Fram kom í allsherjarnefnd að það er mjög sjaldgæft að það reyni á að kröfur séu endurvaktar. Það er þá helst í þeim örfáu undantekningartilfellum að fólki tæmist arfur eða eitthvað slíkt. Þetta er athugasemd við ræðu formanns allsherjarnefndar en ekki bein fyrirspurn. Ég vildi koma því að að mér finnst hv. formaður ekki alveg vera á réttu róli varðandi það sem frumvarpið á að ná til. (Forseti hringir.) Frumvarpið vekur í raun upp væntingar sem ekki er hægt að standa undir.