139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[13:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd um flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna frá ríkinu. Þetta er afskaplega gott mál að ég tel. Sveitarfélögin eru nær borgurunum en ríkið og ef einhvers staðar er þörf á mikilli nálægð og nærgætni þá er það einmitt í málefnum fatlaðra.

Ég verð hins vegar að gagnrýna, eins og fleiri sem hafa talað um málið, að það kemur allt of seint fram. Nefndin þurfti að vinna mjög mikið og hart vegna þess að málið er svo viðamikið og þá er hætta á því að eitthvað verði ekki nægilega djúpt hugsað og ekki nægilega vel unnið, menn geri einhver mistök þó að þeir hafi reynt hvað þeir geta til að koma í veg fyrir það en þegar þeir vinna kannski eftir miðnætti við að skrifa nefndarálit og annað slíkt er alltaf hætta á því að eitthvað riðlist til. Ég verð því eins og fleiri að gera athugasemd við hvað þetta kemur seint.

Vinnan í nefndinni var afskaplega góð, eins og ég hef svo sem sagt í andsvari, og það er til fyrirmyndar, frú forseti, hvernig þar tókst til. Svo vil ég líka þakka nefndarritara fyrir mjög gott starf. Það var óskaplega flókið og margbrotið að setja þetta saman.

Það sem ég ætlaði að ræða um er stefna eða kannski frekar skortur á stefnu. Menn eru alltaf að tala um einhverja stefnumótun í staðinn fyrir að tala um stefnuna sem er verið að móta. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem margoft hefur verið rætt um kemur fram að menn hafi verið frá 2004 að móta stefnu í ráðuneytum, en hún er ekki enn þá fullmótuð. Það þarf að gera verulega athugasemd við það. Maður spyr sig: Af hverju er stefnan ekki til? Þá getur komið upp sú hugsun að kannski séu markmiðin of háleit, kannski þau séu hreinlega of dýr og ekki hægt að veita þá þjónustu sem margir vilja veita. En þá þarf líka að segja það, þá þarf það bara að koma fram þannig að ekki sé verið að vekja miklar væntingar til málsins um hvað verði gert.

Stóraukið fjármagn hefur verið veitt til málefna fatlaðra síðastliðin 15 ár eða frá 1995. Ég verð að kíkja á það — ég er reyndar með fyrirspurn um það en er ekki búinn að fá svar við henni þótt hún sé búin að liggja í tíu daga í ráðuneytinu eða þann frest sem ráðuneytið hefur til að svara. Það hefði verið gott að hafa upplýsingarnar við hendina vegna þess að ég hef grun um að þessi málefni hafi fengið mjög mikinn stuðning frá ríkisvaldinu en það veitti heldur ekki af, frú forseti. Þeir sem vita hvernig staða fatlaðra var fyrir svona 10, 20 eða 30 árum vita að hún var bágborin, ömurleg, þannig að það sé sagt. Það er alls ekki allt búið, það er langt í land með að við séum komin á þann stað sem menn vilja kannski sjá málefni fatlaðra einstaklinga stödd.

Stefnumótunin eða stefnan er mjög nauðsynleg, alveg sérstaklega núna þegar verið er að flytja málaflokkinn frá einum aðila sem er ríkið yfir til 14 aðila sem eru svæðisskrifstofurnar. Maður hefði viljað sjá einhverja stefnu í gangi til að þessi 14 svæði gætu meðhöndlað málaflokkinn með samræmdum hætti þannig að fatlaðir á einu svæði fengju ekki aðra meðhöndlun en fatlaðir á öðru. Svo verður að segja að þessi seinkun á tilfærslunni er óafsakanleg. Nú er kominn 17. desember, það er vika til jóla og tvær vikur til áramóta. Fólkið sem vinnur við þetta á svæðisskrifstofunum veit ekki hver örlög þess verða, það veit ekki hvað gerist, hvort það heldur vinnunni sem vonandi flestir gera o.s.frv. Skjólstæðingur þess, hinn fatlaði einstaklingur, er náttúrlega aðalatriðið í þessu máli, frú forseti. Hann eða aðstandendur hans vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér um næstu áramót, eftir tvær vikur. Það er varla hægt að bjóða upp á þetta. Reyndar er búið að skipta landinu í svæði, það er strax þakkarvert. Eftir stendur að óvissan er mikil og þá koma upp alls konar vandamál. Við skulum reyna að drífa þetta af. Ég ætla ekki að tefja málaflokkinn með því að tala allt of lengi. Ég held að það sé mikilvægt að við drífum þetta af og ég vona að frumvarpið verði að lögum í dag eða á morgun.

Maður kemst ekki hjá því að ræða af hverju frumvarpið kom svona seint fram. Menn hafa náttúrlega með réttu sagt að ráðuneytið beri ábyrgð á því að hafa ekki lagt það nógu fljótt fram. En af fréttum að dæma virðast stéttarfélög hafa tafið málið og það er sá aðili sem ég tel að maður eigi kannski að taka minnst tillit til eða hafa minnsta samúð með, frú forseti. Fyrst er hinn fatlaði einstaklingur, næst í röðinni koma starfsmennirnir sem sinna honum og síðast finnst mér að stéttarfélögin eigi að koma. En þau fá í rauninni 70 milljónir af þessum 10 milljarða pakka og þá reikna ég með að 70% séu laun af þessum 10 milljörðum og 1% af þeim launum er borgað í stéttarfélög, þannig fæ ég út 70 milljóna töluna. Stéttarfélögin eru í rauninni að bítast um þessar 70 milljónir. Þannig er mál með vexti að opinberum starfsmönnum ber samkvæmt lögum að borga í ákveðið stéttarfélag hvort sem þeir vilja vera í því stéttarfélagi eða ekki. Það vill svo vel til að fyrir liggur breytingartillaga í þinginu, á þskj. 571, sem lagar þessa stöðu, þ.e. tekur þessa skylduaðild opinberra starfsmanna að ákveðnu stéttarfélagi úr sambandi, tekur hana út. Það vill svo til að ég flyt þá tillögu, frú forseti, þannig að það komi ekki á óvart.

Staðan er nefnilega sú að fátækir opinberir starfsmenn með léleg laun í umönnunarstéttum, í leikskólum eða sjúkrahúsum, geta ekki stofnað stéttarfélag til að berjast fyrir betri kjörum — þeir geta það ekki. Í árdaga stéttarfélagsbaráttunnar, í byrjun síðustu aldar, var það aðall verkamanna og -kvenna að geta barist fyrir kjörum sínum með því að stofna stéttarfélög og fara í verkfall. Þau geta það ekki í dag. Það er út af þessu sem ég legg til í breytingartillögu minni að þetta ákvæði laganna verði tekið burt. Þetta tengist þessu máli vegna þess að þegar málaflokkurinn flyst yfir til sveitarfélaganna ber þessum starfsmönnum samkvæmt þessu ákvæði að borga í stéttarfélag starfsmanna sveitarfélaganna hvers um sig, þ.e. sálirnar flytjast til — þetta er eins og mansal. Greiðslurnar flytjast yfir til annars móttakanda, stéttarfélags, og það þolir stéttarfélagið sem sér af þeim peningum og sálum ekki.

Farið var í mikið samningaþóf og málaflokkurinn, hið fatlaða fólk, leið fyrir það. Hv. félagsmálanefnd sem fjallaði um frumvarpið leið fyrir það. Hún þurfti að vinna þetta af allt of miklum hraða og var undir allt of miklu álagi fyrir bragðið. Fatlaðir vita ekki hvert þeir eiga að fara vegna þessa ágreinings milli stéttarfélaganna. Svo varð sú niðurstaða að þeir starfsmenn sem vinna við þetta fengu „val“ um að borga í þetta eða hitt stéttarfélagið, en þeir mega ekki borga í einhver önnur stéttarfélög eða stofna stéttarfélög sjálfir. Þetta er vandinn og ég vildi gjarnan að það kæmi bara skýrt fram að svona er þetta. Það er því ekki alfarið við ráðuneytið að sakast þó að það hefði náttúrlega átt að benda á þetta og koma strax með þær breytingartillögur sem ég er með til að losa um þessa klemmu. Ef þetta lagaákvæði hefði verið tekið í burtu áður, um skyldu opinberra starfsmanna til að borga í ákveðið stéttarfélag, þá hefði þetta ekki orðið neitt vandamál. Þá hefðum við bara flutt málaflokkinn yfir og starfsfólkið veldi sér það stéttarfélag sem það langaði til að vera í.

Ég geri ráð fyrir að flestir vilji vera í stéttarfélagi. Mér þætti ekki skrýtið, frekar en með iðnaðarmálagjaldið, að menn héldu áfram að borga í þau stéttarfélög sem þeir voru í af því að þeir væru ánægðir með störf þeirra. Þannig á það líka að vera. Stéttarfélag á ekki að fá fólk inn burt séð frá því hvort það sé ánægt með störf þess eða ekki. Menn eiga að vilja borga. Launþegar eiga að vilja borga í stéttarfélag af því að þá langar til þess, af því að þeir vilja hafa einhvern sem gætir hagsmuna þeirra í kjarasamningum og mörgu öðru.

Það var gagnrýnt af gestum sem komu til nefndarinnar að alltaf væri verið að tala um „fatlaða“, að það væri eins og þetta væri óljós hópur eða eitthvað ópersónugreinanlegt. Okkur var með réttu bent á að við erum að fjalla um fólk. Málefnið snýst um fólk, einstaklinga. Þess vegna fórum við eina nóttina í gegnum allt frumvarpið, skönnuðum það og leituðum að „fatlað“-eitthvað og bættum við einstaklingur eða fólk. Þá allt í einu rann upp fyrir mér ljós að þetta skipti verulegu máli. Það skiptir verulegu máli að í stað þess að tala um að gæta hagsmuna „fatlaðs“ eða „fatlaðra“ að segja: Gæta hagsmuna fatlaðs fólks eða fatlaðra einstaklinga. Það er verulegur munur á því, frú forseti. Það er ákveðin virðing við hinn fatlaða, hinn fatlaða einstakling, verð ég að bæta við, að hann sé nefndur sem einstaklingur. Þess vegna var sú stefna tekin í nefndinni að breyta þessu alls staðar í frumvarpinu og það finnst mér mjög gott.

Að síðustu, svo að ég tefji ekki málið og það geti náð afgreiðslu sem fyrst, ætla ég að ræða um Sólheima. Ég taldi að við værum búin að ná ansi góðri lendingu þar, frú forseti, í greinargerð með frumvarpinu. Greinargerð með frumvarpi er lögskýringargagn þegar upp kemur einhver ágreiningur um mál. Þeir atburðir sem hafa gerst út af Sólheimum þykja mér mjög miður. Ég hefði viljað að menn væru ekki alveg svona ákvarðanaglaðir, mundu alla vega bíða og sjá hverju fram vindur. En það má vel vera að þetta leysist með góðri sátt allra sem að málinu koma vegna þess að það er mjög mikilvægt að menn vinni í sátt að málefnum fatlaðs fólks.

Ég ætla að fá að lesa um þetta í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að horft sé bæði til þjónustuþarfa einstaklings sem og óska hans enda með beinum hætti gert ráð fyrir því í 4. gr. frumvarpsins. Telur nefndin því betur fara á því að tala um sambærilega þjónustu í ljósi ólíkra þarfa og leggur til breytingu hvað þetta varðar. Afar mismunandi þjónustuþörf fatlaðs fólks og frelsi þess til að velja sér þjónustu og búsetu verður líka að mæta með fjölbreyttu framboði þjónustu sem tekur mið af mismunandi hugmyndafræði um slíka þjónustu og margvíslegri fötlun. Eitt úrræði hentar einum og annað öðrum og hugmyndafræði kemur og fer. Þess vegna leggur nefndin áherslu á að fjölbreytt þjónustuúrræði, eins og t.d. samfélagið að Sólheimum, verði tryggð í anda þess að fatlaðir einstaklingar geti valið sér búsetu og úrræði.“

Þetta er afskaplega mikilvægt. Það eru nefnilega ýmsar kenningar og hugmyndafræði í gangi um hvernig búa skuli að fötluðum einstaklingum í þjóðfélaginu. Áður fyrr voru þeir settir í „kassa“ og geymdir, oft fjarri samfélaginu svo að þeir trufluðu ekki „venjulegt“ fólk. Það er náttúrlega hræðilegt af því að þetta er fólk, þetta eru einstaklingar.

Síðan kemur hugmyndafræði um að gera betur við þá og blanda þeim inn í þjóðfélagið. Sumir aðhyllast þá hugmyndafræði að það eigi að blanda þeim alfarið inn þannig að í 100 manna blokk sé a.m.k. einn fatlaður, einn fatlaður einstaklingur — nú gleymdi ég, frú forseti, að geta um einstaklinginn þannig að ég fell enn þá í þessa gryfju öðru hverju en vona að ég læri. Sú hugmyndafræði getur átt rétt á sér og er mjög góð í flestum tilfellum en þó getur verið að við vissar aðstæður sé betra að hafa þetta öðruvísi.

Svo er það hugmyndafræðin á bak við Sólheima. Hún er nefnilega nákvæmlega sú sama, að byggja upp samfélag fatlaðs fólks og ófatlaðs fólks. Þeir sem þar ráða ríkjum og vinna þar — ég hef heimsótt þá u.þ.b. þrisvar sinnum og er afskaplega ánægjulegt að koma þangað — hugmyndafræði þeirra gengur út á að byggja upp samfélag þar sem ákveðið raungildi er í gangi, m.a. að samfélagið sé blandað af fötluðum einstaklingum og ófötluðum einstaklingum. Það er það sem liggur að baki Sólheimum. Í rauninni er þetta kannski barátta um hugmyndafræði vegna þess að sumir segja, ótrúlegt nokk, að Sólheimar séu gettó þar sem fötluðum sé safnað saman. Ég andmæli því hástöfum, frú forseti, svo það sé alveg á tæru.

Ég tel mjög mikilvægt að sú hugmyndafræði og það sem er í gangi í Sólheimum, það líf sem þar er, fái að dafna áfram að fullu eins og önnur þau úrræði sem menn hafa fundið fyrir fatlaða einstaklinga. Ég legg þess vegna áherslu á að þetta sé tryggt áfram og fatlaðir geti búið við sinn kost, sem ég tel vera góðan, að Sólheimum. Jafnframt sé boðið upp á önnur úrræði og að fatlaðir geti valið, fatlað fólk — fyrirgefið, nú sagði ég aftur fatlaðir — fatlaðir einstaklingar geti valið um úrræði. Þetta sýnir bara hvað þetta er fast í manni, frú forseti, þessi meiðandi orðanotkun.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra enda hafa aðrir nefndarmenn farið í gegnum þetta mál og tjáð sig um önnur eins, notendastýrða þjónustu og annað slíkt. Ég legg til að menn samþykki þetta sem allra hraðast þannig að þeirri óvissu sem er í gangi sé eytt.