139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hækkar enginn skatta til að skemmta sér og ég vona að ég hafi ekki verið glaðhlakkalegur yfir því, því að það gera menn auðvitað af illri nauðsyn vegna erfiðrar stöðu í ríkisfjármálum.

Það er rétt að auðvitað er meginverkefni okkar að ná upp fjárfestingu og vexti í samfélaginu á nýjan leik, en það að taka á ónýtum ríkisfjármálum sem hér voru orðin er auðvitað bara hluti af því vegna þess að það er forsenda fyrir vexti og viðgangi í efnahagskerfinu að ein af lykilstofnunum þess, ríkissjóður Íslands, verði í fyrirsjáanlegri framtíð sjálfbær með tekjuöflun sinni og með niðurskurði útgjalda. Það er ein af þeim stoðum sem við þurfum að reisa hér um leið og við þurfum auðvitað að leysa úr deilum okkar við önnur ríki og skapa aðstæður til þess að létta hér gjaldeyrishöftum.

Ég held að það sé ekki jafneinhlítt samband á milli lágrar skattprósentu annars vegar og fjárfestingar hins vegar og hv. þingmaður hefur löngum verið talsmaður fyrir. Ég hygg raunar að hann geti fundið ýmis ríki í nágrenni við okkur sem hafi umtalsvert hærri skattprósentur á fyrirtæki og þó margfalt meiri fjárfestingu. Ég held þess vegna að við getum gert hvort tveggja í einu; eflt og styrkt ríkissjóð Íslands og hætt að leggja skuldaklafa á komandi kynslóðir með taumlausum hallarekstri og hitt að grípa til margvíslegra aðgerða til að örva hér fjárfestingu. Ég vona að m.a. þær breytingar sem hv. efnahags- og skattanefnd gerir á frumvarpi til laga um virðisaukaskatt hjálpi til við að stuðla að því og skapa ný tækifæri í íslensku atvinnulífi.