139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

raforkulög.

204. mál
[01:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans hyggst hann leggja það til að iðnaðarráðuneytið nýti þann tíma sem gefist með frestuninni til að láta fara fram hagfræðilega úttekt á því hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður sem mælt er fyrir í gerðum Evrópusambandsins á sviði raforkumála, þ.e. tilskipanir sem eru síðan 2003 og 2009, eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður hér á landi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta. Ég kem hérna upp til að fjalla aðeins um þennan hluta málsins.

Í ljósi þess að Orkuveita Reykjavíkur er eini aðilinn sem í raun og veru fellur undir þessa Evrópusambandstilskipun, þ.e. þegar hún nær 100 þús. tenginga markinu sem hún mun væntanlega ná einhvern tíma á þessu ári, tel ég nokkuð augljóst að þessi tilskipun getur ekki átt við neitt annað orkufyrirtæki í landinu. Það eru einfaldlega ekki nægilega margir þegnar og tengingar í landinu til þess að það geti gerst nema það sé bara eitt fyrirtæki, eða kannski tvö.

Því er nokkuð augljóst í mínum huga, og hefur verið lengi, að það hafi verið vanreifað að innleiða þessa Evrópusambandstilskipun frá 2003 hér og menn hefðu kannski átt, eins og í svo mörgum málum er snerta Evrópusambandstilskipanir, að sækja um undanþágu vegna þess að aðstæður á Íslandi eru svo gjörólíkar þeim sem eru í Evrópu. Annars vegar er fámennið hér og hins vegar sú staðreynd að Ísland er eyja langt úti í Atlantshafi og tengist ekki öðrum löndum Evrópusambandsins á nokkurn hátt nema með miklum sjó á milli eða lofti. Þess vegna er engin hætta á því að hér sé einhver samkeppni milli landa í þessum rekstri.

Þess vegna held ég að kannski hefði átt að nýta tímann í þessu máli miklu fyrr til að fara í endurskoðun en ekki koma á síðustu dögum fyrir jól og sækja um þriðja frestinn til handa eina fyrirtækinu sem þessi tilskipun hefði hugsanlega átt að ná til. Staðreyndin er, eins og hefur komið fram í máli forsvarsmanns minni hlutans, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, að önnur fyrirtæki á raforkumarkaðnum hafa gert þetta en Orkuveitan ekki. Auk þess eru ákveðnar vísbendingar um að við hækkun Orkuveitu Reykjavíkur í haust á raforkumarkaðnum, á verði fyrir bæði dreifingu og sölu á raforku, hafi Orkuveitan misnotað þá aðstöðu til óheppilegra aðgerða á samkeppnismarkaðnum. Þess vegna hlýtur að vera sérstakt umhugsunarefni hvort ekki sé hreinlega mjög rangt af meiri hlutanum að leggja það til að þessu máli verði frestað enn og aftur.

Mér finnst hins vegar ekkert að því að iðnaðarráðuneytið og meiri hlutinn láti kanna það í raun hvort þessi tilskipun, eins og svo margar aðrar, eigi ekki við um markaðsaðstæður á Íslandi og sæki um undanþágu frá henni.