139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

sala á HS Orku.

[15:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Þetta var frekar flókið allt saman þannig að ég skil að hæstv. forsætisráðherra þurfi tíma til þess að fara yfir það. En það er í sjálfu sér áhyggjuefni hversu flókið þetta er. Var það rétt skilið að hæstv. forsætisráðherra boðaði að hugsanlegt væri að ríkisstjórnin færi í eignarnám á fyrirtæki, mundi hugsanlega ógilda samninga sem búið er að gera fyrir mörgum, mörgum mánuðum — hvað sem mönnum finnst um þá samninga? Ég var á móti þeim á sínum tíma, hefði talið æskilegra að menn færu aðrar leiðir á meðan þær voru enn þá í boði. Er ríkisstjórnin að senda út þau skilaboð núna að hún hugsi sér að ógilda eina stóra fjárfestingarverkefnið sem við höfum séð á Íslandi á undanförnum missirum?

Framkvæmdastjóri í fyrirtæki sem er mikið í viðskiptum við útlönd sagði mér að hann hefði aldrei heyrt minnst á Icesave-samningana í viðræðum við útlendinga. Hins vegar væri eitt mál sem hann heyrði nefnt aftur og aftur og hefði orðið til þess að menn væru ekki alveg vissir um hvort óhætt væri að leggja í fjárfestingar á Íslandi. (Forseti hringir.) Það væri öll umræðan um HS Orku og sú endalausa óvissa sem ríkisstjórnin viðhéldi varðandi það mál og virðist enn vera að bæta í núna.