139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

fréttir af breskum lögreglumanni og aðgerðasinna.

[15:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur sjálfur þegar svarað þessari spurningu í máli sínu. Hann spurði um viðbrögð utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar en jafnframt gat hann þess í ræðu sinni að hæstv. innanríkisráðherra hefði upplýst að hann hygðist kanna hvort íslenskir lögreglumenn og lögregluyfirvöld hefðu verið í samvinnu eða samráði við þau bresku. Af sjálfu leiðir að ekki er tilefni fyrir ríkisstjórnina eða utanríkisráðherra til þess að grípa til neinna sérstakra viðbragða fyrr en niðurstaða þeirrar rannsóknar liggur fyrir.

Ég hef sjálfur fylgst með þessu máli í hinu sama dagblaði sem hv. þingmaður vísar til og þar hefur komið alveg skýrt fram að hæstv. innanríkisráðherra hafi meira að segja dagsett hvenær sú rannsókn eigi að hefjast. Þangað til tel ég rétt að við bíðum með að grípa til viðbragða.

Hins vegar get ég lýst því sem skoðun minni að þetta sé mjög umdeilanleg aðferð sem þarna er beitt. Hún kemur mér hins vegar ekki allsendis á óvart. Það vill svo til að í fyrra las ég hina ágætu bók In Defence of the Realm sem er hin opinbera saga MI5 og þar er sérstakur kafli um hvernig sú leyniþjónusta fylgist með umhverfisaðgerðasinnum.

Í þessu tilviki var um að ræða mann, eins og Guardian segir frá því í u.þ.b. tíu fréttum síðustu viku, sem kom hingað til lands, kenndi íslenskum aðgerðasinnum nánast nýjar aðferðir til að beita við mótmæli af því tagi sem þeir stóðu fyrir, útvegaði þeim alþjóðleg tengsl að auki og sem segir sjálfur að hann hafi verið mörgum sinnum á dag í sambandi við bresku lögregluna. Auðvitað þurfa íslensk lögregluyfirvöld að kanna það en það þarf líka að kanna hvort íslensk yfirvöld hafi verið þarna í samstarfi. Eins og ég skil þetta er um að ræða forvirkar rannsóknir sem íslensk lögregla (Forseti hringir.) hefur ekki heimild til að stunda.