139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

dómstólar.

246. mál
[14:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er frumvarp til laga um dómstóla sem fjallar um fjölgun dómara. Mikið álag er á dómstólunum vegna bankahrunsins og annarra ástæðna sem fólk þekkir og því er lagt til að dómurum verði fjölgað bæði í Hæstarétti og héraðsdómi. Ég hef gagnrýnt að til að mæta þeirri útgjaldaaukningu verði dómsmálagjöld hækkuð og auk þess ákvæði um að forseti Hæstaréttar sitji í fimm ár í staðinn fyrir tvö ár.

Nú kynnti formaður allsherjarnefndar hér á undan mér að taka eigi málið inn í nefnd milli 2. og 3. umr. og því ætlar Framsóknarflokkurinn að sitja hjá í þessari umferð en að meginstefnu til hefur þingflokkur framsóknarmanna fylgt þessu máli vel eftir og er sammála því en þar sem boðaðar eru breytingar á frumvarpinu milli umræðna komum við til með að sitja hjá.