139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[14:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skal engan undra að ég komi í andsvar við hæstv. utanríkisráðherra því að ég hef um langa hríð lagt áherslu á málefni norðurslóða, þess dýrmæta svæðis sem þar liggur og aðkomu okkar Íslendinga að því. Þess vegna leggst hálfilla í mig að hæstv. utanríkisráðherra skuli nú vera kominn með þetta mál í formi þingsályktunartillögu því að það sýnir á hvaða leið hæstv. ráðherra er, enda kemur skýrt fram í þessari þingsályktunartillögu að Ísland er eina strandríkið sem hefur aðild að norðurskautinu. Þá tengi ég þetta við ESB-umsóknina. Áhugi hæstv. utanríkisráðherra markast af henni. Því langar mig til að spyrja ráðherrann: Er mikil pressa í ráðuneytinu á að þessi leið verði farin? Sér Evrópusambandið sér ekki mikinn leik á borði að innlima Ísland í Evrópusambandið vegna þeirra hagsmuna (Forseti hringir.) sem eru kynntir í þessari þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram?