139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[17:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur úr hörðustu átt að heyra það úr munni sjálfstæðisþingmanns að Íslendingar muni ekki reka sjálfstæða utanríkisstefnu. Íslendingar ráku ekki sjálfstæða utanríkisstefnu áratugum saman, það var einfaldlega þannig. Þeir voru á áhrifasvæði Bandaríkjanna, greiddu alltaf atkvæði eins og þeir í öllum málum. Það var varla að Bandaríkjamenn þyrftu að hafa fyrir því að skikka Íslendinga til að fylgja sér. Þannig var þetta bara.

Nú reka Íslendingar sjálfstæða utanríkisstefnu. Menn sjá það gagnvart loftslagsmálum, menn sjá það gagnvart Palestínu. Afstaða okkar til Palestínu hefur ekki beinlínis orðið til þess að við vinnum verðlaun eða titilinn „starfsmenn dagsins“ þegar kemur t.d. að bandaríska stjórnmálasamfélaginu.

Heldur hv. þingmaður því fram að það ríki sem hann nefndi fyrr til sögunnar í dag, Þýskaland, reki enga utanríkisstefnu? Heldur hann því fram að Ítalía og Spánn reki enga utanríkisstefnu? Hv. þingmaður ætti líka að vita að varðandi norðurskautssvæðið eru fleiri en Evrópusambandið sem hafa áhuga á því að komast að sem áheyrnarfulltrúar. Það eru ríki eins og Ítalía sem frá fornu hefur haft gríðarlegan áhuga á norðurheimskautunum og sem sendir næstum árlega fólk til Íslands og norðurheimskautsins til að skoða, meta, kanna og rannsaka. Er eitthvað að því? Við höfum stutt það. Við höfum stutt það, íslenska ríkisstjórnin, þessi og fyrri ríkisstjórnir, að Evrópusambandið komi sem áheyrnarfulltrúi í Norðurskautsráðið. Ég hef líka stutt það að Singapúr komi þangað sem áheyrnarfulltrúi. Hvers vegna? Vegna þess að það eru ríki í Asíu sem sjá ákveðna viðskiptamöguleika í kjölfar bráðnunar. Bráðnunin er staðreynd. Hún er neikvæð en hefur líka ákveðin tækifæri í för með sér. Við bjóðum velkomna alla þá í Norðurskautsráðið sem vilja vinna vel að því að nýta þessi tækifæri en eru sér líka meðvitaðir um háskann fyrir okkur sem búum hérna. Það er út á það sem þetta gengur.