139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

atvinnumál -- ESB-umsóknarstyrkir -- netskrif þingmanns -- St. Jósefsspítali o.fl.

[14:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil hér í lokin taka undir orð þeirra sem hafa lýst áhyggjum sínum af atvinnuástandinu á Flateyri. Ég held að ástandið þar sé birtingarmynd þess sem getur gerst þegar við búum við það gallaða kvótakerfi sem við höfum búið við í fjölda ára. Við verðum bara að horfast í augu við það. Þetta er smækkuð mynd þess sem hefur verið að gerast í gegnum árin og á eftir að gerast ef við gerum ekki neitt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við skuldum þessum byggðum það, þingmenn alls landsins, að mæta fólki í þessum erfiðleikum. Þetta eru ekki sjálfskapaðir erfiðleikar, heldur erfiðleikar sem eru komnir til vegna þess að þingmenn þjóðarinnar hafa ákveðið að hafa eitthvert kerfi þannig að það hafi lokast og ekki gert þeim sem byggja þessar byggðir, sem eru í nálægð við gjöful fiskimið, kleift að skapa sér atvinnu með eðlilegum hætti. Við höfum lokað þessu kerfi allt of mikið (Gripið fram í: Er hann ekki veiddur úti á landi, fiskurinn?) og við þurfum að opna það að nýju til að mæta því fólki. Þegar menn hafa ákveðið að hætta í útgerð í byggðarlögum úti á landi fara þeir með allt sitt og skilja íbúana sem búa enn á staðnum eftir varnarlausa. Við eigum að horfa til þessara íbúa sem eftir eru. Þeir eiga sinn fulla rétt, þeir hafa byggt upp þessar vinnslur og sjávarútveginn. Það gerir það enginn einn. Þessir íbúar eiga fullan rétt á því að hafa atvinnu áfram og öryggi í byggðarlagi sínu. Nú skulum við taka höndum saman, standa með íbúum Flateyrar og breyta þessu óréttláta kerfi svo við sé unandi í þessu landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)