139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér heldur áfram fyrri umræða um þingsályktunartillögu okkar sjálfstæðismanna sem við lögðum fram snemma í haust um aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin, verja velferð með ábyrgum ríkisfjármálum, efla atvinnulífið og fjölga störfum, efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna. Hæstv. utanríkisráðherra kom og talaði mjög fjálglega um að nú væri allt á beinu brautinni. Þetta er ræða sem við höfum heyrt frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar áður, ég veit ekki hvort þeir trúa þessu sjálfir.

Mig langar að leiðrétta hæstv. utanríkisráðherra, a.m.k. eina tölu. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að einstaklingum á atvinnuleysisskrá frá því í desember 2009 þangað til í desember 2010 hefur fækkað um 1.356, ég var með rúmlega 1.300 í mínu bókhaldi. Það er rétt að einstaklingum hefur fækkað sem þessu nemur á atvinnuleysisskrá. Það getur vel verið og við skulum vona að Íslendingum sé enn þá að fjölga. Það sem hæstv. ráðherra lét vera að nefna er að á sama tíma og við berum vinnumarkaðinn, heildarstærð vinnumarkaðarins, saman í desemberlok 2009 og desemberlok 2010 hefur hann dregist saman um 8.000 manns. Það er því ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan að störfum hafi fjölgað svo um munaði á Íslandi á þessum tíma, þvert á móti hefur störfum fjölgað um rúmlega 6.000 störf, ef við drögum 8.000 frá 1.300 þá fáum við það út, vegna þess að vinnumarkaðurinn sjálfur hefur dregist saman þannig að störfin hafa horfið, fólk hefur farið, flutt til útlanda eins og bent var á, fólk hefur ákveðið að fara í nám eða horfið af vinnumarkaði af einhverjum öðrum ástæðum.

Ég held að þetta séu skilaboðin sem hæstv. ríkisstjórn verður að fara að sjá. Það er ekki rétt að hér hafi verið tekið til hendinni í atvinnumálum. Það er ekki rétt að komin sé einhver skriður á atvinnulífið þótt sem betur fer sé hægt að nefna einstaka verkefni sem hafa farið í gang.

Ég verð að segja alveg eins og er að miðað við fréttir síðustu daga er ég ekki bjartsýn þegar ég veit varla hvort ég er að vakna upp í Keflavík eða í Karakas, vegna þess að eignarnámshótanir og tilburðir til þess að fæla endanlega frá erlendar fjárfestingar eru með ólíkindum. Ég held að það sé algjört íhugunarefni fyrir ríkisstjórnina að hætta þessum skeytasendingum, viðurkenna að það tækifæri sem ríkisstjórnin hafði til þess að grípa í taumana í Magma-málinu og HS orku rann þeim úr greipum. Við skulum leyfa atvinnulífinu að fá frið til þess að það geti farið að byggja sig upp vegna þess að það er algjörlega öndvert við það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, því það er víst mikil þörf á að fá erlenda fjárfestingu hingað til lands til þess að koma okkur upp úr þessari lægð.

Ég tel að þetta gæti verið seinasta ræðan, a.m.k. frá okkur sjálfstæðismönnum, í fyrri umræðunni, en þegar tillaga okkar var lögð fram þá var hún lögð fram til mótvægis við þá stefnu sem ríkisstjórnin var að fara. Við komum með aðra leið, aðrar leiðir má segja. Við komum með tillögur að aðgerðum sem við lögðum í þetta púkk, vegna þess að það er alveg rétt sem hefur verið margrætt hér að það er engin ein lausn á því hvernig við eigum að koma okkur út úr þessari kreppu. Það eru til margar góðar leiðir og fínar lausnir og við eigum að taka höndum saman um að vinna að þessu. Það er mikið talað um samráð og nauðsyn þess að hætta að karpa og vinna saman. Þá vekur það athygli mína að það eru ekki mjög margar af þeirri 41 tillögu sem við lögðum fram sem ríkisstjórnin hefur tekið upp á sína arma og þegið góð ráð frá okkur sjálfstæðismönnum í vinnu sinni. Ég get ekki séð að þær séu harla margar.

Ég geri kannski mestan ágreining við ríkisstjórnina í efnahagspólitík hennar, hvað varðar skattapólitíkina. Ég er algjörlega sannfærð um að ef okkar leið hefði verið farin, annars vegar með skattlagningu á viðbótarlífeyrissparnaðinn og hins vegar með því að draga til baka skattahækkanirnar sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir frá því hún tók við, þá værum við að sjá samfélagið taka kipp upp á við með þeirri innspýtingu sem í því fælist. Og til þess að við getum einhvern tímann verið viss um að hlutirnir fari af stað verður að taka þannig ákvarðanir. Við verðum að átta okkur á því — ríkisstjórnin verður að átta sig á því — að það er ekki hægt að skattleggja okkur út úr þessari kreppu. Eina leiðin til að vinna okkur út úr kreppunni er að við vöxum út úr henni.

Virðulegur forseti. Og eitt í viðbót þessu tengt. Það er nefnilega það skrýtna við þetta að hæstv. fjármálaráðherra áttar sig á þessu í einu tilfelli. Hann fer hér um sveitir og talar fyrir hinu merka átaki Allir vinna — sem minnir mig á að ég á eftir að fara með nóturnar til hans, ég verð að drífa í því — sem byggist á þeirri hugmyndafræði að ef við lækkum skatta aukist umsvif. Ég get tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann predikar þessa góðu stefnu og ég hvet hann til og skora á hann að útvíkka þetta sjónarhorn. Ég vil benda honum á að þetta virkar í fleiri geirum en bara í þeim sem þetta er í núna. Best af öllu væri að hæstv. fjármálaráðherra mundi nota tímann sem fram undan er til þess að íhuga hvort ekki væri rétt að endurskoða skattapólitíkina með þessa lækkun til hliðsjónar til þess að koma atvinnulífinu af stað.

Að lokinni þessari umræðu verður þessum tillögum vísað til efnahags- og skattanefndar sem ég vona að fari vel yfir þær og ef hæstv. ríkisstjórn sæi sér fært að taka, þó ekki væri nema eina, tvær, þrjár, fjórar, að ég segi ekki fleiri tillögur til meðferðar, mundi það gleðja mitt litla hjarta.