139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að fara fyrst yfir lagaumhverfið og það stjórnskipulag sem hér er undir. Hér voru sett lög um Bankasýsluna sem var falið að fara með eignarhlut ríkisins í bönkum og sparisjóðum og eftir atvikum öðrum fjármálafyrirtækjum sem tímabundið gætu lent í eigu ríkisins að hluta eða öllu leyti.

Þannig var frá málum gengið að ekki yrði um nein pólitísk afskipti að ræða af hálfu alþingismanna eða ráðherra, stjórnmálamanna yfirleitt, heldur væri Bankasýslan sjálfstæð í störfum sínum og er í samræmi við það að finna ákvæði í eigandastefnu ríkisins sem ríma við lögin um Bankasýsluna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins sér alfarið um samskipti ríkisins sem eiganda við fjármálafyrirtæki sem ríkið á hluti í og tengjast eigandahlutverki þess. Bankastjórnir, stjórnir og stjórnendur fjármálafyrirtækja munu ekki eiga bein samskipti við fjármálaráðuneytið eða ráðherra“ og vice versa.

Með öðrum orðum, þannig er alveg frá þessu gengið. Keðjan er reyndar nokkuð löng, ef við hugleiðum það, frá Alþingi sem hér setur lög til fjármálaráðherra sem fer með framkvæmd þessara mála, til Bankasýslunnar sem fer með eigandahlutverkið, sem aftur skipar stjórnir í þau fjármálafyrirtæki sem ríkið á aðild að en hefur að öðru leyti ekki bein áhrif á rekstur þeirra eða ákvarðanir umfram það sem gildir um eiganda og hefðbundnar boðleiðir í samræmi við félagsform viðkomandi fyrirtækis. Það verður að sjálfsögðu að hafa í huga að stjórnir viðkomandi fjármálafyrirtækja eru ábyrgar, í þessu tilviki bankaráð Landsbankans sem er að sjálfsögðu ábyrgt fyrir starfsemi hans. Það er jafnskýrt í tilviki Bankasýslunnar að hún skipar þessa stjórnarmenn, framfylgir eigandastefnunni, en tekur hins vegar hvorki þátt í rekstri fyrirtækjanna né reynir að hafa áhrif á rekstrarlegar ákvarðanir þeirra utan hefðbundinna samskipta sem tengjast félagsformi hvers fyrirtækis. Þetta er það fyrirkomulag sem hér var dregið upp og styðst við annars vegar lög sem sett voru á Alþingi og hins vegar þær reglur sem gilda í samskiptum fyrirtækja af þessu tagi. Landsbankinn er þar af leiðandi eins og hvert annað hlutafélag í þessum efnum og um eignina er búið að þessu leyti.

Varðandi eignarhaldsfélagið Vestiu höfum við rætt það hér áður og ég kannast ekki við að upplýsingar um verð í þessum viðskiptum, eða sem öllu heldur er kannski nær að kalla sameiningu eignarhaldsfélagsins Vestiu og Framtakssjóðsins, hafi ekki verið veittar. Í svari sem hv. þingmaður hefur nýverið fengið kemur skýrt fram að verðið var 15,5 milljarðar kr. með þeim fyrirvörum sem endanlegt mat getur haft þar á. Landsbankinn heldur eftir 19% hlut í Icelandic Group og öðlast í gegnum þessi viðskipti 25% eignarhlut í Framtakssjóðnum. Það kemur sömuleiðis fram að verðmæti alls hlutafjár í Icelandic Group var þarna metið 13,9 milljarðar kr. og samanlagt verðmæti hinna félaganna 4,25 milljarðar kr. Þessar upplýsingar liggja fyrir um verðið sem þarna var undir í þessum viðskiptum.

Bankasýslan hefur farið yfir þetta mál. Hún komst að þeirri niðurstöðu að þessi viðskipti hefðu verið hagstæð fyrir Landsbankann. Það er mat hennar á því eftir að kanna það. Í samskiptum við Bankasýsluna höfum við ítrekað lagt á það áherslu að mikilvægt sé að eigandastefnunni sé framfylgt. Þetta höfum við gert bæði í óformlegum samskiptum og á fundum með Bankasýslunni. Enn fremur er mikilvægt að upplýsingar séu reiddar fram með eins greiðlega og kostur er.

Til að ítreka þetta skrifaði ráðuneytið Bankasýslunni bréf í morgun þar sem beðið var um eins tæmandi upplýsingar og hægt væri að fá, í fyrsta lagi um forsögu þessarar ákvörðunar Landsbankans, hvaða sjónarmið hefðu legið að baki, ítarlegar upplýsingar um þá verkferla sem stuðst var við og þá eftir atvikum undanþáguheimildir sem beitt var frá því að um opið söluferli væri að ræða og loks hvernig Landsbankinn hygðist í framhaldinu í gegnum Framkvæmdasjóð beita sér fyrir því að sams konar reglur yrðu í heiðri hafðar.

Ég tek að sjálfsögðu undir að það er mikilvægt að upplýsingar séu reiddar greiðlega fram í þessum efnum. Ég tel að það hafi verið staðið algerlega við það sem af hálfu fjármálaráðuneytisins hefur verið upplýst.

Varðandi síðan þær viðræður sem staðið hafa um sölu á einstökum fyrirtækjum út úr fyrirtækinu Icelandic munu Framtakssjóðurinn og Vestia hafa látið opinberlega í ljós áhuga á því að fá samstarfsaðila að fyrirtækinu í haust. Í framhaldinu sneru sér allmargir aðilar til Framtakssjóðsins (Forseti hringir.) eða fyrirtækisins Icelandic og lýstu áhuga, síðan hafa verið viðræður við einn af þessum aðilum, (Forseti hringir.) sjóð að nafni Triton, um möguleg kaup hans á eignum út úr fyrirtækinu Icelandic (Forseti hringir.) en ekki fyrirtækinu í heild.