139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

grunsemdir um njósnir á Alþingi.

[10:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Við lesum daglega um tilraunir tölvuþrjóta til þess að komast inn í tölvukerfi stofnana víðs vegar um heiminn. Þetta er partur af nýjum veruleika. Þetta er partur af því sem við sem stofnun verðum einfaldlega að búast gegn og undirbúa okkur gegn. Ég tek undir með þeim segja: Þetta er alvarlegt mál. Um leið segi ég að menn eigi ekki að hrapa að neinum ályktunum og við skulum bíða eftir skýrslu forseta, sjá hvað hún leiðir fram. Það liggur þegar fyrir að ekki virðist hafa verið farið inn í kerfið sjálft.

Ég skil vel tilfinningar manna eins og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar en vil samt undirstrika að við skulum ekki beina ásökunum að neinum í þessu máli. Hv. þingmaður sagði að það væru grunsemdir og nefndi einn tiltekinn stjórnmálaflokk og þá á hann bara að segja hvaða grunsemdir það eru. Ég vil segja fyrir mitt leyti a.m.k. að ég hef unnið með þingmönnum Hreyfingarinnar og ég ber einfaldlega þá virðingu fyrir þeim og greindarstigi þeirra að ég tel ekki að þau séu slíkir kjánar að hafa tekið þátt í slíku og vil ég (Forseti hringir.) fyrir hönd þingsins verja þau fyrir ásökun af því tagi. Ég tel að það sé ekki sæmandi að bera slíkt inn í umræðuna á þessu stigi máls. (Gripið fram í.)