139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

neysluviðmið.

[11:15]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að vera mér að kenna að hafa orðað það með einhverjum hætti svo að drög lægju fyrir, en mér hefur ekki verið skilað neinni vinnu frá þeim sérfræðingahópi sem er að vinna. Væntanlega er komin inn á netið núna yfirferð á því hvernig þetta mál hefur verið unnið. Það er þriggja manna sérfræðinganefnd sem hefur unnið að neysluviðmiðum eða framfærsluviðmiðum þar sem leitað er eftir og skoðað hver grunnviðmiðin geta verið og síðan almenn neysluviðmið. Sá hópur, þriggja manna sérfræðingahópur, hefur svo haft á bak við sig stýrihóp með fulltrúum frá sveitarfélögunum, umboðsmanni skuldara og Reykjavíkurborg til að vera rýnihópur. Ég mætti á einn fund með þeim milli jóla og nýárs þar sem ég fékk að vita hver staðan væri. Þessi hópur hittist í hádeginu í dag að ég best veit og þá verða lögð fram drög að skýrslu sem á að fylgja þessari vinnu en ætlunin er svo í framhaldinu, og það er unnið að því líka, að þetta komi allt inn á vefsíðu með tilheyrandi reiknivélum og allar þessar tölur verði birtar.

Auðvitað munu verða mörg álitamál að fenginni reynslu frá Norðurlöndunum af svona neysluviðmiðum. Það eru atriði eins og húsnæðismál, hvernig á að taka á þeim í þessu, þar eru afar mismunandi tölur að baki eftir hvort um er að ræða leiguhúsnæði eða eigið húsnæði, hvar það er á landinu o.s.frv. Allt þetta þarf að vera inni í matinu á því hvernig framfærsluviðmið eða neysluviðmið eru metin.

Vinnan er í fullum gangi og ég vona að hún komi sem fyrst í opinbera umræðu. Það verður engin ritstýring af minni hálfu á þessari vinnu og hefur aldrei staðið til. Ég hef sagt að þegar vinnunni lýkur þurfi hún opinbera umræðu þar sem við ræðum hreinskilnislega sem þjóð hvað við teljum vera ásættanlega grunnframfærslu í landinu og hvernig við nýtum svo þau viðmið inn í bótakerfið, samninga (Forseti hringir.) og annað slíkt.