139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kann að vera að hugtakanotkunina þurfi að endurskoða. Ég er samt enn þá þeirrar skoðunar að þau sjónarmið sem ráðið hafa för og mér þykja enn ráða för í samfélaginu séu karllæg. Þá kemur maður kannski inn á það að hafa lesið töluvert í kynjafræðum og í rannsóknarskýrslu Alþingis, að hafa tekið þátt í þingmannanefndinni og séð með kynjagleraugum hvernig skýrslan var skoðuð. Ég er kannski bundin þeirri hugtakanotkun, það kann að vera en ég er enn þá þeirrar skoðunar að það karllæga, og við höfum líka talað stundum um feðraveldi, sé það sem hefur ráðið för í samfélaginu. Við getum verið sammála um að hætta þessari hugtakanotkun en við þurfum þá að vera sammála um að nálgast, og ekki bara við hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, verkefnið út frá því að staða karla og kvenna sé jöfn. Við eigum að finna okkur ferli og meðalveginn þar sem sjónarmið bæði karla og kvenna ráða för.

Ef við næðum því á öllum vígstöðvum gætum við bundið vonir við að það breyttist og að þessum karllægu sjónarmiðum eldri manna yrði vikið til hliðar. Eins og hv. þingmaður lýsir fást margir karlmenn af yngri kynslóðinni í sínu daglega lífi við það sama og konur, kann að vera að aldursmunur ráði för. Ég hef sjálf, og það er alveg staðreynd, á mörgum sviðum mjög karllæg sjónarmið og ég velti fyrir mér af hverju það sé. Ég held að það sé beintengt því uppeldi sem ég fékk, að mér væru alltaf allir vegir færir, ég gæti gert nákvæmlega sömu hluti og strákar og það stæði mér ekki fyrir þrifum að vera kona. Hugsanlega er í því fólgið (Forseti hringir.) eitthvert karllægt sjónarmið.