139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[14:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp til að inna hv. þm. Pétur Blöndal eftir því hvort mér hafi ekki örugglega misheyrst. Mér fannst eins og hv. þingmaður segði að konur sæktu sérstaklega í láglaunastörf. Ég vona að hv. þingmaður eigi við að það hagi þannig til að störfin sem konur hafa áhuga á séu verr launuð. Er hann ekki sammála mér í því að það sé vandamálið en ekki að konur sæki sérstaklega í láglaunastörf? Ég trúi því ekki að það sé tilfinningin.

Vandinn er landlægur. Við verðum að horfast í augu við að samfélagið hefur í gegnum áranna rás metið störf kvenna minna en störf karla, því miður er það þannig þó að um sömu störf sé að ræða. Konur í læknastétt hafa að jafnaði lægri laun en karlar í læknastétt. Karlar í hjúkrunarstétt hafa að jafnaði hærri laun en konur í hjúkrunarstétt. Þetta er vandinn en ekki að konur sæki í láglaunastörf.