139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins út af Jóel, það er ósköp einfalt fyrir stjórnsýsluna sjálfa að gera alla hluti það flókna að kerfið fer að þvælast um fyrir sjálfu sér en þegar upp er staðið getur ráðherra hoggið á hnútinn. Ég hvet þann ráðherra ríkisstjórnarinnar sem þetta mál snertir og málið er hjá að leysa og höggva á þann hnút sem allra fyrst. Þetta snýst um þrjá einstaklinga sem eru fastir í útlöndum og komast ekki heim til okkar ástkæra lands. Ég bið þá menn sem hér eru inni að huga að því.

Varðandi hitt vonast ég til þess, og vil segja það fyrir framan þingheim, að við tökum þá nálgun sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur lagt áherslu á, að hér verði þverpólitísk samstaða í þessu máli, að við vinnum málið vel og fáum fólk til að skilja af hverju við viljum vera forgöngumenn í þessu máli þannig að aðrar Norðurlandaþjóðir verði síðan sporgöngumenn hvað þetta mál varðar.

Það er alveg hárrétt, ég man vel þegar ég var formaður allsherjarnefndar á sínum tíma og við ræddum m.a. stjúpættleiðingar samkynhneigðra. Þá þrýstu ákveðnir hópar mjög á að það mál færi ekki í gegn. Við þekkjum það í sögunni. Ég trúi því og treysti að þingið geti staðið saman í þessu máli af því að þetta er réttlætismál, mál sem tekur tillit til þess samfélags sem við búum í í dag. Við eigum ekki að loka á að við erum með mismunandi samfélags- og fjölskyldumunstur og við verðum einfaldlega að koma til móts við þarfir þeirra einstaklinga sem fyrir eru. Ég held að það geti enginn sett sig í spor pars sem vill eignast börn en getur það ekki. Ég held að enginn geti sett sig í þau spor nema þeir sem hafa verið í þeim sjálfir og þá á samfélagið að gera hvað það getur til að styðja fólk í slíkum erfiðum raunum sem það er að hafa ekki möguleika á því að eignast barn.