139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

Magma.

[14:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú kannast ég við gamla Sjálfstæðisflokkinn minn, hann er kominn til Venesúela. Það er spurning hvort ég eigi ekki að senda hv. þingmanni farmiða til baka. (REÁ: Er þetta málefnalegt?)

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur heyrt af þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin tók í morgun um næstu skref í þessum málum sem m.a. snúa að því sem hv. þingmaður nefndi, að taka upp viðræður við Reykjanesbæ um orkuauðlindirnar sjálfar og möguleg kaup (Gripið fram í.) ríkisins á þeim. Það er mjög spennandi kostur og ég hygg að hann gæti orðið liður í lausn þessara mála þannig að lágmarksfriður skapaðist um þau kaup. Auðvitað er markmið í sjálfu sér að hafa ekki uppi þau átök, þá óvissu og þann óróleika sem í kringum þetta hefur verið, að sjálfsögðu.

Það er ekki eins og að öll vandamál hafi verið leyst. Við þekkjum það vel að skipulagsmál, álitamál sem varða aflið á svæðunum, hversu mikil nýtingin megi verða, línulagnir og margt fleira hafa verið ófrágengin þarna. Menn byrjuðu ekki á réttum enda í þessari uppbyggingu, (Gripið fram í.) því miður, og það þýðir (Forseti hringir.) ekkert endalaust að kenna einhverjum öðrum um en því sem er raunverulega vandamálið, að það er alveg ósamið um undirstöðuþætti þessa máls, (Forseti hringir.) orkuverðið, afhendingu og annað í þeim dúr.