139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

afskriftir skulda hjá ríkisstofnunum.

[14:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi er kannski ekki mig að spyrja um þessi mál og erfitt fyrir mig að svara til um þau því þau eru ekki á mínu verksviði hvað varðar löggjöf um Íbúðalánasjóð. Það er þó ekki rétt sem hv. þingmaður segir að Íbúðalánasjóður hafi ekki heimild til að fella niður kröfur á hendur fyrirtækjum. Það er vandalítið fyrir Íbúðalánasjóð. Það sem hins vegar kunna að vera einhver álitamál um er staðan gagnvart einstaklingum. Varðandi verktakafyrirtæki og önnur slík sem hafa tekið lán hjá Íbúðalánasjóði á sjóðurinn að geta unnið úr þeim málum.

Það er hins vegar ansi mikið uppsóp í þessum málum og við þurfum að fara yfir það hvað þarf að gera og það er gott að heyra frá þingmanninum góðan vilja til að greiða fyrir málum sem kunna þurfa að koma fram af hálfu ýmissa ráðherra til að gera það kleift að ráðist sé í endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja.