139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings.

[15:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Allir þeir sem hafa fylgst með störfum Hæstaréttar í gegnum árin og áratugina vita að Hæstiréttur er seinþreyttur til vandræða en nú liggur fyrir að rétturinn hefur úrskurðað kosningu til stjórnlagaþings ógilda. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér voru allir dómarar Hæstaréttar sammála um þá niðurstöðu. Nú stendur upp á hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn að gera þinginu grein fyrir því með hvaða hætti hún hyggst bregðast við þeirri niðurstöðu. Í mínum huga er auðvitað ekki hægt að reyna að koma sökinni yfir á landskjörstjórn sem framkvæmdi kosninguna í samræmi við þau lög sem fyrir liggja. Hæstiréttur dæmir samkvæmt lögunum og það lítur út fyrir að sú lagasetning sem leiddi til þessarar niðurstöðu sé algjörlega vanbúin. Niðurstaðan sýnir líka að hæstv. ríkisstjórn er gjörsamlega vanhæf til þess að koma málum (Forseti hringir.) sómasamlega frá sér. Hún virðist ekki einu sinni geta efnt sómasamlega (Forseti hringir.) til einna kosninga. Ég kalla eftir því, (Forseti hringir.) frú forseti, að það verði efnt til umræðu (Forseti hringir.) um þetta mál strax og jafnframt að boðað verði til fundar í allsherjarnefnd til þess að fara yfir stöðu málsins.