139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings.

[15:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir kröfu þeirra hv. þingmanna sem hafa talað á undan mér um að hæstv. forsætisráðherra verði strax kölluð til þings til að gera grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp. Þessi kosning er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, kosningin og lagasetningin sem hún byggir á er fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra. Þess vegna er algjört skilyrði að við fáum hæstv. forsætisráðherra fyrst hingað á þingið til þess að gera grein fyrir þessu. Við þingmenn viljum ekki þurfa að lesa skýringar hennar í fjölmiðlum eða hlusta á þær í fréttum, við viljum að hæstv. forsætisráðherra verði kölluð til nú þegar til að við getum átt orðastað um þá stöðu sem nú er komin upp.