139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna þeirrar spurningar hv. þingmanns hvort þeir sem buðu sig fram til stjórnlagaþings eigi rétt á skaðabótum frá íslenska ríkinu þá vil ég svara því til að ég hef í sjálfu sér ekki mótað mér neina sérstaka skoðun á því. Það er svo í okkar samfélagi að við höfum innbyggt í þessa ferla ákveðna varnagla þannig að telji fólk á sér brotið í lýðræðisferlinu getur það leitað til að mynda til Hæstaréttar eins og gerðist í þessu máli. Og þó að ég taki vissulega undir það að niðurstaðan hafi verið áfall fyrir okkur sem stóðum að þessu verkefni er kerfið samt sem áður að virka hjá okkur að því leytinu til að Hæstiréttur er að leiðrétta kúrsinn og við þurfum einfaldlega að taka þeirri leiðsögn.

Það mikilvægasta sem við gerum í stöðunni núna er einfaldlega að fara yfir það sem úrskeiðis fór. Það liggur fyrir að við höfum í hyggju að kalla til stjórnlagaþings á þessu ári til að fara yfir stjórnarskrána. Það er einfaldlega þannig í lýðræðisferlinu að allt er breytingum háð. Þannig er það með okkur sem bjóðum okkur fram til opinberra starfa í þágu þjóðarinnar á hinu háa Alþingi og þannig er það líka með þá sem buðu sig fram til opinberra starfa fyrir hönd þjóðarinnar á stjórnlagaþing. Allt er breytingum háð í þessum efnum. Við viljum tryggja að leikreglur séu í heiðri hafðar. Það var því miður ekki gert í þessu tilfelli og yfir því getum við fundið til ábyrgðar og tekið til okkar en það er líka okkar ábyrgð að lagfæra þetta, koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig og draga lærdóm af þessu vegna þess að markmiðið er að fara í þá gagngeru endurskoðun á stjórnarskránni sem við lögðum upp með. Það er aðalatriðið í málinu og það er hið sameiginlega verkefni Alþingis nú um stundir.