139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

heilbrigðisþjónusta og málefni aldraðra.

214. mál
[17:58]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um málefni aldraðra. Þar er fyrst og fremst er verið að tala um að öllum íbúum á dvalar- og hjúkrunarheimilum bjóðist einbýli á viðkomandi stofnun sem er í raun og veru hreint og tært mannréttindamál. Það getur ekki talist annað en hógvær krafa sem hér kemur fram að lögð verði fram áætlun innan árs og gefinn fimm ára frestur til að koma þessu í framkvæmd.

Öll þekkjum við eitthvað til aldraðra og allir þingmenn og sjálfsagt flestir Íslendingar telja að aldraðir eigi allt það besta skilið og við eigum að sýna þeim virðingu og búa þeim góð skilyrði þegar þeir hafa lokið starfsævi sinni og njóta ævikvöldsins. Almennt held ég að fólk sé á þeirri skoðun að aldraðir eigi að búa sem allra lengst heima hjá sér með viðeigandi stuðningi á meðan ekki er gengið um of á greiðasemi og umönnun fjölskyldu, og ég tel að langflestir aldraðir óski þess að búa heima hjá sér við eðlilegar heimilisaðstæður sem allra lengst. Boðið er upp á heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagvist og endurhæfingu sem fólk getur annaðhvort sótt sér eða fengið heim til sín þá þjónustu sem það þarf á að halda. Mér finnst skipta miklu máli — og hér tölum við svolítið á svipuðum nótum og gert er núna um málefni fatlaðs fólks — að þetta sé ákveðin persónustýrð þjónusta, að aldraðir eigi sjálfir að geta fengið að segja dálítið til um það hvernig þjónustu þeir vilja á meðan þeir hafa heilsu til þess. Síðan kemur að því hjá mörgum að þeir þurfa að flytja að heiman vegna þess að heilsa þeirra leyfir ekki lengur eða fjölskylduaðstæður að þeir geti búið heima hjá sér og þá eru til staðar dvalarheimili og hjúkrunarheimili sem eru stofnanaheiti sem fólk ruglar gjarnan saman. En það hlýtur að vera eðlilegt að krefjast þess að í velferðarríkinu Íslandi árið 2012 séu þessi heimili sem allra líkust heimilum og ef fólk kýs að búa þar með öðrum sé það valin sambúð en ekki þvinguð.

Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni sem talaði á undan mér að ég geri ekki ráð fyrir því að við eða hvað þá heldur börn okkar eða barnabörn munum nokkurn tíma sætta okkur við að þurfa að búa í herbergi, ekki íbúð heldur herbergi með aðilum sem eru okkur alls óskyldir og við þekkjum ekki og líkar jafnvel bara alls ekki við. Því miður er staðan enn þá þannig að maður kemur inn á stofnanir þar sem allt að fjórir einstaklingar eru settir í sama herbergi og eiga að búa þar saman í sátt og samlyndi. Oftast nær gengur það örugglega þokkalega en það er ekki víst að allir dagar séu góðir í því sambandi.

Ég tel að hér sé, og ég ítreka það, um algjört mannréttindamál að ræða. Margir góðir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn hafa flutt þingmál um þetta efni og eins og ég segi geri ég ekki ráð fyrir að margir hv. þingmenn muni standa gegn framgangi þessa máls. En nú erum við komin á það stig að við viljum tímasetja þessa vinnu, við viljum að áætlun liggi fyrir innan árs og að framkvæmdinni verði lokið innan fimm ára. Ég tel að það ætti mjög auðveldlega að geta gengið því að nú þegar er í gangi áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma sem hæstv. forsætisráðherra kom á í sinni tíð sem félagsmálaráðherra.

Uppi eru um hugmyndir að flytja málaflokk aldraðra til sveitarfélaganna um næstu áramót og ég held að það sé virkilega gott. Málefni aldraðra eru í raun nærþjónusta sem á eðlilega heima hjá sveitarfélögunum og ákveðin samlegðaráhrif við þá þjónustu sem þar er fyrir. Ég vona svo sannarlega að þessi flutningur verði vel undirbúinn og að farið verði tímanlega af stað í þá vinnu þannig við lendum ekki í hálfgerðu tímahraki eins og gerðist þegar við unnum að flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaganna, af því að við viljum svo gjarnan að vel sé að þessu verki staðið. Þar með er ég á engan hátt að draga úr því, ég tel eðlilegt að þessi málaflokkur fari yfir til sveitarfélaganna og með mörkuðum tekjustofnum þannig að tryggt sé að þjónustan muni á engan hátt versna við það, og eins og ég segi, það eru mörg samlegðaráhrif. Ég held að ákveðinn ruglingur milli búsetuforma, milli þjónustuveitenda og annað slíkt muni verða úr sögunni við það að sveitarfélögin taki þennan málaflokk yfir.

Að lokum langar mig til að minnast á að mér finnst skipta mjög miklu máli að við vinnum að úrræðum fyrir aldraða jafnt um allt land. Sums staðar er staðan þannig að þjónustan eða aðstaðan er betri í hinum dreifðu byggðum en annars staðar er hún kannski mun verri. Við verðum að gæta þess mjög vel að aldraðir dreifast nokkuð jafnt um landið og þeir þurfa, hvar sem þeir hafa valið sér búsetu, að eiga rétt á þjónustu þannig að þeir geti, hvar sem þeir búa, verið sem allra lengst heima hjá sér en síðan átt þess kost að eiga nokkuð örugga og vandaða vist á viðeigandi stofnun ekki mjög langt frá fjölskyldu sinni. En af því að við byggjum ekki hjúkrunarheimili á hverjum þéttbýlisstað á Íslandi tel ég afar mikilvægt að hugað sé að því að fólk sem komið er á þann virðulega aldur að geta talist aldrað sé ekki flutt einhvers konar hreppaflutningum langa vegalengd og þurfi að búa langt frá fjölskyldu sinni.

Ég ítreka að þetta er hið besta mál sem við ræðum hér og tel mjög gott að verið er að gera kröfur um áætlun og í raun ákveðna tímamarkaða áætlun sem verður vonandi til þess að enginn þarf framar að búa í þvingaðri sambúð heldur eingöngu þar sem hann velur sér sjálfur.