139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Á maður að þurfa að sæta því að sitja undir ásökunum frá hv. þingmanni fyrir það að hafa ekki kynnt sér efni rannsóknarskýrslunnar? Í hvaða umræðu erum við eiginlega hér? Ég hélt að við værum að ræða um stjórnlagaþingskosninguna og hvernig hún klúðraðist, (ÞSa: Ég er að spyrja að því.) en hv. þingmaður hefur mestan áhuga á Sjálfstæðisflokknum og rannsóknarskýrslunni sem við afgreiddum og ég greiddi atkvæði með þingsályktunartillögu á þinginu um það hvernig þingið ætti að bregðast við. (ÞSa: En pólitísk ábyrgð?) Hina pólitísku ábyrgð tók Sjálfstæðisflokkurinn út í síðustu kosningum þegar hann fékk verstu niðurstöðu í 80 ára sögu sinni. Þannig var það, þannig er lýðræðið í framkvæmd á Íslandi.

Hv. þingmaður spyr um stjórnlagaþingið. Ég veit ekki hversu oft ég þarf að koma hingað upp til að útskýra fyrir hv. þingmanni að ég tel aðrar leiðir farsælli til endurskoðunar á stjórnarskránni. Ég lýsi mig reiðubúinn til að taka þátt í því endurskoðunarstarfi og ég tel okkur hafa úr miklu að moða sem undirbúningsvinnu fyrir það starf. Ég hef hins vegar aldrei (Forseti hringir.) verið kallaður á fund hæstv. forsætisráðherra eða nokkurs annars ráðherra til að ræða þau mál. Það er enginn áhugi hjá ríkisstjórninni til þess að (Forseti hringir.) eiga þverpólitískt samstarf um það.