139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

staða innanlandsflugs.

[15:51]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka sömuleiðis hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Hún hefur kannski vakið athygli þeirra sem á hlýða á því hversu stefnulaust utanumhaldið virðist vera um innanlandsflugið okkar. Sú staða er uppi, eins og kom fram í máli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar áðan, að daglega eru einn til tveir einstaklingar fluttir í sjúkraflugi. Það liggur fyrir að það á að fækka flugbrautum hér eftir fjögur ár, það kemur fram í þeim gögnum sem við höfum fengið frá flugrekstraraðilum að útfærsla gjaldskrárbreytinga liggur ekki fyrir þó að þær eigi að taka gildi eftir einungis tvo mánuði. Við getum endalaust rifist um það og haldið okkur uppteknum við að ræða hvort leggja eigi þetta á eða ekki en það er búið að taka þessar ákvarðanir og þá er bara eftir að útfæra þær. Svörin sem flugrekstraraðilarnir fá frá Isavia eru þau að beðið sé eftir ákvörðun og svörum innanríkisráðherra varðandi endurnýjun á þeim þjónustusamningi sem þar er í gangi.

Með sama hætti þurfum við að ræða innanlandsflugið og hvar sú miðstöð á að vera með tilliti til þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram og að því gefnu að þau áform sem hafa eða a.m.k. höfðu meirihlutafylgi gangi eftir um það að leggja flugvöllinn af í Vatnsmýrinni. Ég er alfarið andvígur því að leggja hann af, svo það sé tekið fram, en það er ýmislegt fleira í þessu sem vekur mann til umhugsunar því að uppleggið að sameiningu Flugstoða á Keflavíkurflugvelli var að ná fram hagræðingu í rekstri. Hvernig hefur hún skilað sér? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.

Enn fremur hafa komið fram upplýsingar um það hvernig unnið er með innheimtu þessara gjalda. Fyrir liggur sú skoðun flugrekstraraðila að verið sé að mismuna farþegum eftir því hvar á landinu þeir fljúga. (Forseti hringir.) Það er t.d. hærra gjald lagt á farþega í Reykjavík en annars staðar á landinu og það gengur ekki upp.