139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að oft hafa menn ofmetið meintan fjárhagslegan ávinning af sameiningu stofnana. Reyndar tók ég það fram í framsögu minni að hér yrði að horfa til langs tíma. Tekið var fram að fjárfestingarkostnaður vegna húsnæðis og annarra þátta yrði mikill á fyrstu missirum og árum, jafnvel fyrstu þremur, fimm árunum, en síðan kæmi til samlegðarávinnings. En ég tek undir með hv. þingmanni að iðulega er þetta ofmetið.

Ég ætla ekki að fara í nákvæma umræðu um stjórnsýsluna í þeim stofnunum sem vikið er að, Vegagerðina t.d. Mín tilfinning er sú, kynni mín af þeirri stofnun og þeim stofnunum sem hér um ræðir eru mjög góð. Ég held að það sé alveg sambærilegt við varnaðarorð hv. þingmanns, um að við eigum að forðast alhæfingar, að það sama eigi við um stjórnsýsluna í þessum opinberu stofnunum. Ég held að þegar við tölum um fækkun stöðugilda — hann nefndi tvö, aðeins tvö — þurfum við að spyrja áður en við hröpum að einhverjum yfirlýsingum af þessu tagi: Hvaða verkum sinnir þetta fólk, er þeim verkum ekki vel sinnt og eru þau verk ekki nauðsynleg?

Mín tilfinning er sú að Vegagerðin, af því að sérstaklega var vísað til hennar, sé mjög vel rekin stofnun.