139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir, að vinnubrögðin hafi verið vönduð við sameiningu þessara stofnana og undirbúningurinn.

Ég verð að viðurkenna að mér fannst hæstv. ráðherra vera dálítið villtur eða týndur í umræðunni um skattlagninguna eða nýju gjöldin. Hæstv. ráðherra segir: Hér er verið að búa til nýjar stofnanir. Eigum við að reka þær með því að hækka skatta eða nota notendagjöld?

Mér finnst vera ákveðin þversögn í máli hæstv. ráðherra vegna þess að það er, ef ég skil málið rétt, ekki verið að taka einhver gjöld sem eru nú þegar rukkuð inn í stofnununum heldur er verið að gefa heimild til að leggja á ný gjöld. Það fer ekki á milli mála. Ef þessi gjöld væru núna rukkuð í stofnunum þá skilaði sú gjaldtaka, annars vegar nýju gjöldin og hins vegar hækkun á gjaldskránni, ekki þessum auknu tekjum inn í ríkissjóð. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hæstv. ráðherra fara eins og köttur í kringum heitan graut með þetta, eins og ég skil það.

Þetta er ekki flókið, finnst mér a.m.k. Heimildin í frumvarpinu er sú að leggja á ný gjöld og hækka gjaldskrá. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að þetta megi túlka með þeim hætti að það megi hugsanlega hækka skatta. En þeir eru hluti af þessum 37 millj. kr. sem skila sér til hagræðingar inn í ríkissjóð í heildina á þessum 207 millj. kr., 170 millj. kr. hagræðing og 37 millj. kr. í nýja gjaldtöku og hækkun gjaldskrár.

Skil ég þetta ekki alveg örugglega rétt? Ég spyr. Svona stendur þetta í frumvarpinu. Ég vona að ég sé ekki að misskilja þetta en það færi betur ef svo væri.