139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

407. mál
[16:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa innblásnu ræðu og upprifjun hæstv. utanríkisráðherra á sögunni. Það er alveg rétt sem hann skautar utan í, við höfum átt við að stríða ýmsar tískusveiflur í þessum sölum. Einu sinni var nánast bannað að gagnrýna útþenslu íslenska bankakerfisins. Sú var tíðin líka að menn höfðu nánast sett bann við því að hafa efasemdir um hið Evrópska efnahagssvæði, jafnvel þótt til væru þeir menn, á meðal þeirra sá er hér stendur, sem gagnrýndu þær takmarkanir sem EES setti á lýðræðið í landinu og hvernig við hefðum verið knúin til að gera ýmsar breytingar á samfélagi okkar þvert gegn vilja fólks, einfaldlega vegna þess að Brussel fyrirskipaði.

Það er alltaf gott að rifja upp söguna. Ég er hæstv. utanríkisráðherra þakklátur fyrir að gera það í þessu efni, auk þess sem ég þakka fyrir hans ágæta innlegg til þessarar umræðu um Vegagerðina.