139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

rannsókn samgönguslysa.

408. mál
[17:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að aðalgagnrýnin var, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan eða andsvari, að menn töldu þessa sérfræðiþekkingu glatast. Menn gerðu athugasemdir við það, og þeir sem starfa í þessum nefndum, að þær eru settar þannig saman að þar eru menn með sérþekkingu á hverju sviði. Menn færðu mjög sterk rök fyrir því að ef þetta yrði gert á þennan veg yrði utanaðkeypt þjónusta hjá sérfræðingum yrði mun meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það var eitt af þeim atriðum sem þurfti svo að fara og fá almennileg rök fyrir hver hagræðingin væri í raun og veru af þessu.

Í einni umsögninni sem sex aðilar skrifa undir, þ.e. Sjómannasambandið, Farmanna- og fiskimannasambandið, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Slysavarnafélagið, Samtök verslunar og þjónustu og Landssamband íslenskra útvegsmanna, koma fram mjög alvarlegar athugasemdir þar sem segir meðal annars að óskað hafi verið eftir samráði við ráðuneytið við undirbúning þessa máls en ráðuneytið hafi í engu svarað því. Það er kannski það sem ég var að fiska eftir hjá hæstv. ráðherra áðan hvort brugðist hefði verið við ábendingum sem komu fram um umsagnir málsins á fyrri stigum og rætt einmitt við þá sem gera svona alvarlegar athugasemdir.

Eins og menn sjá á þessari athugasemd, sem var send til hv. samgöngunefndar, eru það fulltrúar sjómanna og slysavarnafélagsins sem gera þessar athugasemdir og það er mjög bagalegt ef ekki hefur verið tekið tillit til þeirra. Eins koma ákveðnar fullyrðingar fram í þessum hugmyndum sem ekki er efnislega ástæða til að fara yfir hér, maður skoðar það frekar í nefndinni. Það er líka eitt af markmiðum nefndarinnar að fækka samgönguslysum og bæta rannsóknir á þeim. Þó svo að ekki felist í því einhver fullyrðing um að því sé ábótavant má svo sem alltaf gera betur og læra af því. En þetta er bara eitt af þeim mörgu atriðum sem komu fram í meðferð nefndarinnar og þess vegna er ég að kalla eftir þessum svörum frá hæstv. ráðherra.