139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar, ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu. Hvað varðar þátt fyrri ríkisstjórnar í samningunum hefur komið skýrt fram að gerð var ferð til Brussel þar sem notuð voru Brussel-viðmið og ég leyfi mér að halda því fram að miðað við þær efnahagslegu aðstæður sem Ísland stóð frammi fyrir plús það veganesti sem fólkið á vegum Íslands hafði sennilega í vasanum er ekkert ólíklegt að það hafi samþykkt þann afarkostasamning sem þá var í gangi. Þá vísa ég til fullyrðinga fyrrverandi seðlabankastjóra um að breski seðlabankastjórinn hafi sagt að Íslendingar mundu ekki þurfa að greiða þetta í framtíðinni.

Ég er alveg sammála því að brottflutningur fólks mun hugsanlega aukast á næstu árum. Ég vona sannarlega að svo verði ekki. Það mun hafa afgerandi slæm áhrif og gera okkur miklum mun erfiðara að standa undir skuldbindingum ríkissjóðs.

Ég er ekki viss um að það komi fram í nefndarálitinu að eignir þrotabúsins séu fyrst og fremst í íslenskum krónum. Þær eru það alls ekki, þær eru að miklum minni hluta í íslenskum krónum. Það þarf hins vegar að afla gjaldeyris til að greiða þær og hluti af því kemur úr þrotabúinu en hluti af því þarf að koma í gegnum útflutning á vöru og þjónustu sem getur orðið vandamál.

Efnahagslegu fyrirvararnir mættu vera betri en engu að síður eru þeir ákveðnir, einfaldir og skilmerkilegir. Ég segi bara að þeir séu góðir vegna þess að ég er dauðfeginn að þeir séu þarna inni. Fyrst og fremst er mér létt þess vegna. Það getur orðið erfitt að greiða þetta og það getur orðið Íslandi ofviða en það verður þó aldrei meira ofviða en það sem tekið er fram þarna, 1,3% af landsframleiðslu á hverju ári. Það gæti orðið í 40–50 ár en það er þó a.m.k. þak á því.