139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í nefndarálitinu stendur, með leyfi frú forseta:

„Skuldaskil þrotabúsins munu hafa áhrif á greiðslujöfnuð landsins þar sem töluvert af eignum þrotabúsins upp í Icesave-kröfurnar er í íslenskum krónum …“

Þetta eru ekki nema 8% þannig að þetta mun hafa sáralítil áhrif á greiðslujöfnuðinn þar sem peningarnir koma inn í erlendri mynt og fara aftur út í erlendri mynt.

Varðandi þessa efnahagslegu fyrirvara hef ég margbent á það að ef hér verður stöðnun, sem allt stefnir í með núverandi ríkisstjórn við völd, (Gripið fram í: Hvaða vitleysa …) — að sjálfsögðu, það er allt staðnað, menn eru ekki að byggja upp neitt traust, menn eru ekki að gera nokkurn hlut til að skapa atvinnu. (Gripið fram í: Nú?) Nei. Ég vil gjarnan fá skýrslu um það hvar er verið að skapa atvinnu og hvar fólk getur fengið vinnu hér á landi en ekki í Noregi.

Þessir fyrirvarar geta verið mjög hættulegir ef hér er allt í stöðnun, enginn vöxtur og menn þurfa alltaf að borga jafnmikinn hluta (Forseti hringir.) af tekjum ríkissjóðs.