139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ábendinguna. Ég þarf að finna þessa villu í skjalinu ef um er að ræða villu. Vissulega hefur það áhrif á greiðslujöfnuð landsins ef það þarf að greiða mikið af erlendum skuldum og kaupa gjaldeyri inn í íslenskum krónum en ekki öfugt. Ég þarf að setjast yfir þetta.

Hvað varðar efnahagslegu fyrirvarana vek ég athygli á því sem ég sagði áðan. Mér er í rauninni óskiljanleg niðurstaða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd um að styðja þetta mál héðan í frá. Áhættan af því hefur ekki breyst það mikið. Þess vegna lýsi ég eftir því að fá að sjá hinn nýja stjórnarsáttmála milli Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar. Kúvending Sjálfstæðisflokksins í málinu er ekki réttlætanleg út frá niðurstöðu þessa samnings miðað við fyrri samninga sem hafa verið gerðir.

Vonandi kemur það betur í ljós einhvern tíma síðar hvað hangir á spýtunni því að það segir ekkert um það í nefndarálitinu.