139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:37]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þetta andsvar. Menn greinir vissulega á um muninn á Icesave 2 og Icesave 3. Greiningarfyrirtæki hafa sagt að munurinn sé á bilinu 115–121 milljarður á núvirði.

Svo er spurningin hvernig menn meta tímann sem farið hefur í málið í krónum talið. Það er eftir því tekið hvernig forkólfar orkufyrirtækja, forkólfar Samtaka atvinnulífsins og forkólfar Alþýðusambands Íslands hafa metið töfina. Hún er veruleg í peningum talið. Ég er alveg sannfærður um að ef við hefðum samþykkt fyrri samning og hann hefði gengið í gegn væri endurreisnin komin lengra af stað. Ég endurtek það sem ég sagði í ræðu minni, það voru mistök, ég játa þau hér og nú, að hafa ekki bundist pólitískum böndum fyrr í þessu máli og hrint því í gegn í krafti samstöðu stjórnmálaflokka á Alþingi. Það var óheppilegt að fara í pólitískar skotgrafir með þetta mál, með þessar fjárskuldbindingar í farteskinu.

Þetta er ekki pólitískt mál, þetta er samningsgerð sem hefði átt að leysa fyrir utan pólitíkina. Þess vegna voru það mistök á sínum tíma að fara fram með málið einhliða í pólitíkinni, í stað þess að sækja það fram í krafti samstöðunnar.