139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að rifja upp fyrir vin minn og félaga, hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson, að þegar við greiddum atkvæði um þann samning sem hann vísar til greiddi Sjálfstæðisflokkurinn atkvæði á móti honum ásamt stjórnarandstöðunni og einum stjórnarliða, svo að það fari ekki á milli mála.

Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á þá kemur fram í frumvarpinu að heildarmismunurinn á samningunum er 171 milljarður, þ.e. miðað við 86% endurheimtur, sem er grunnurinn. Um það þarf ekki að deila. Hins vegar gæti það ruglað suma að reiknað væri með þessum 115–121 milljarði sem hv. þingmaður talar um en þá á eftir að taka tillit til þess sem gerist eftir 2016. Það er ekki deilt um að samningurinn er 171 milljarður. Hv. þingmaður hefur sagt það tvisvar sinnum, bæði í andsvari og ræðu, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stutt samninginn. Það er alrangt.

Hv. þingmaður vitnaði í nefndarálit okkar sjálfstæðismanna þar sem við sögðum frá ábyrgð þeirra sem samþykktu fyrra samkomulag í árslok 2010, þá var ekki talað um 171 milljarð. Þá voru þingmenn stjórnarmeirihlutans, miðað við forsendur sem þá voru, tilbúnir að leggja á þjóðina 490 milljarða, miðað við 75% endurheimtur og þær kröfur. Það voru gögnin sem menn greiddu atkvæði um. Við vöruðum við að það yrði gert.

Ég fagna því sem hv. þingmaður sagði að við hefðum betur snúið bökum saman fyrr og ekki sett málið í þann pólitíska farveg sem það var sett í. Við hefðum betur gert það sem gerðist í framhaldinu eftir að þjóðin hafnaði samningunum, Íslendingar stóðu saman á móti Bretum og Hollendingum en rifust ekki innbyrðis.