139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þingmanni hefur yfirsést er að með því að við höfum staðið á rétti okkar, með því að við höfum leitt viðsemjendum okkar fyrir sjónir hver lagaleg staða okkar er í málinu (VigH: Hún er engin.) höfum við fengið þá niðurstöðu sem hér er komin. Menn vilja einfaldlega ekki horfast í augu við það að sá samningur sem er á borðinu felur t.d. í sér skuldbindingu sem er 1/10 af því sem áður var. Halda menn að það hafi gerst vegna þess að við höfum ekki staðið á rétti okkar? Hvers konar þvættingur er þetta eiginlega? Það er vegna þess að við höfum vakið athygli á því að við værum óhrædd við að fara með málið fyrir dómstóla (VigH: Rangt.) ef menn ætluðu að beita okkur afarkostum. Það er þannig sem þessi niðurstaða er fengin.

Framsóknarflokkurinn hefur greinilega bara verið í einhverju gabbi allan tímann, einhverju plati, vegna þess að hér koma framsóknarmenn upp hver á fætur öðrum og tala eins og að aldrei hafi nokkurn tímann komið til greina að semja um eitt eða neitt.