139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona þá að það hafi glaðnað yfir hv. þingmanni í dag þegar Seðlabankinn birti nýja spá með heldur betri hagvaxtarhorfum en hann mat að væru til staðar í nóvember. Þær eru komnar nær því að vera þær sem við reiknuðum með, t.d. þegar við unnum með fjárlagafrumvarpið framan af ári, að nálgast aftur 3% hagvöxt á þessu ári.

Það er alltaf gott að samstaðan sé sem mest og það er alltaf fólginn styrkur í samstöðunni. Ég tek undir það með hv. þingmanni að sjálfsögðu. Það verða allir að líta í eigin barm í þeim efnum og þar á meðal sá sem hér talar. Það getur vel verið að við hefðum átt að reyna að viðhafa meira þverpólitískt samráð á öðrum forsendum en þeim sem gert var t.d. framan af ári 2009. Það var með hefðbundnum hætti, með sama hætti og hafði verið í tíð fyrri ríkisstjórnar, þ.e. að samninganefnd var skipuð af hálfu stjórnvalda — að hluta til sú sama og hafði verið í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar — og síðan var samráðinu háttað þannig að með reglubundnu millibili var utanríkismálanefnd Alþingis og í einu tilviki a.m.k. fjárlaganefnd upplýst um framvindu mála. Þannig var þessu háttað á útmánuðum 2009. En það var ekki sérstök þverpólitísk nefnd í málinu og kannski, eftir á að hyggja, hefði það verið betra frá byrjun.

Þegar ég tala um stöðu landsins er ég í máli mínu hér aðallega að tala um stöðu landsins út á við. Ég held að þetta hafi að sjálfsögðu miklu meiri áhrif á hana en endilega stöðu okkar sem slíka og ástandið hér inn á við í hagkerfið. Þar er ég auðvitað sammála hv. þingmanni að það sem skiptir öllu máli er að koma hinu almenna atvinnulífi betur á snúning. Þar hefur hin hæga skuldaúrvinnsla tvímælalaust tafið fyrir okkur, það hef ég margsagt úr þessum ræðustóli. Ég held að það sé, auðvitað ásamt ýmsu fleiru, eitt af því sem hefur valdið því að hagvöxturinn hefur tekið hægar við sér en ella væri. (Forseti hringir.) Skuldabyrði atvinnulífsins er þung og allt of mörg fyrirtæki (Forseti hringir.) með meira og minna ónýtan efnahagsreikning.